Persónukjörið að falla á tíma

Jóhanna Sigurðardóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segist vera kunnugt um að skiptar skoðanir eru innan raða þingmanna Vinstri grænna um persónukjör. Hún vill að allsherjarnefnd hraði afgreiðslu málsins svo hægt sé að greiða atkvæði um það, enda sé tíminn fyrir sveitarstjórnarkosningar skammur.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, sagði merkilegar upplýsingar hafa komið fram í gær þess efnis að umsögn hafi borist frá þingmönnum og ráðherrum VG um persónukjör. Í henni segir að ekki sé rétt að afgreiða frumvarpið á þessum tímapunkti. Hann spurði hvort ekki væri hægt að leggja fram mikilvægari mál en þau sem ekki sé samstaða um í ríkisstjórn. Hvort verið væri að drepa tímann í þinginu.

Jóhanna sagðist gera sér grein fyrir því að skiptar skoðanir séu innan þingflokks VG líkt og annarra flokka. Hún segist leggja mikla áherslu á persónukjörið og telur það til framdráttar. Hún sagði rétt hjá Bjarna að málið sé að falla á tíma og því sé mikilvægt að hraða afgreiðslu þess.

Bjarni sagði ekki hægt að hraða afgreiðslu málsins. Það væri of stórt. Hægt væri að taka það til gaumgæfilegrar skoðunar en ekki við þessar kringumstæður og ekki fyrir sveitarkosningarnar næsta vor.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka