Samkvæmt fyrstu niðurstöðum um fjölda þorskseiða virðist 2009 árgangur þorsks slakur, svipaður og árin 2004-2006 í grunnslóðarkönnunum. Fyrstu merki um 2009 árgang ýsu benda til þess, að sá árgangur sé langt undir meðaltali á grunnslóð.
Þetta er meðal niðurstaðna úr nýafstaðinni haustkönnun Hafró á rækjumiðunum á Vestfjörðum og á fjörðum og flóum norðanlands, samkvæmt frétttilkynningu frá stofnuninni.
Hvað rækjuna sjálfa varðar þá mældist víða mjög lítið af rækju, en stofnunin leggur þó til að rækjuveiðar verði leyfðar í Arnarfirði í vetur, með 300 tonna hámarksafla. Rækjustofninn mældist lítill í Ísafjarðardjúpi og hafði minnkað mikið síðan árið 2007 þegar hann virtist vera í sókn. Aðeins fannst rækjuvottur í Húnaflóa en mjög lítið í Skagafirði. Minna fékkst af henni í Skjálfanda heldur en síðustu 3 árin og lítið í Öxarfirði.
Að þessu sinni fór haustkönnun fram á Dröfn RE 35. Leiðangursstjórar voru Guðmundur Skúli Bragason og Stefán Heiðar Brynjólfsson. Skipstjóri var Gunnar Jóhannsson.