Spá auknu atvinnuleysi

mbl.is

Samkvæmt spá Seðlabankans hefur atvinnuleysi ekki enn náð hámarki, enda bendir flest til þess að enn muni draga úr eftirspurn eftir vinnuafli á næstu misserum.Spáð er að atvinnuleysi nái hámarki í rúmlega 10% á fyrsta ársfjórðungi 2010, en það er tæplega prósentu minna atvinnuleysi en í síðustu spá.

Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi haldist mikið, milli 9% og 10% alveg fram á annan ársfjórðung árið 2011, en minnki síðan smám saman eftir því sem efnahagsumsvif aukast.

„Sveigjanleiki íslensks vinnumarkaðar er hins vegar töluverður. Atvinnuleysi eykst því minna en ella. Umsamdar launahækkanir hafa og munu áfram vega salt við launalækkanir sem gripið er til í fyrirtækjum til að lækka kostnað þar til að nýir kjarasamningar verða gerðir.

Launakostnaður á framleidda einingu eykst nokkuð á þessu ári vegna minnkandi framleiðni og hækkunar tryggingagjalds þó nafnlaun hækki minna en undanfarin ár. Spáð er hægum vexti launakostnaðar á framleidda einingu á árunum 2010-2012, þar sem aukin framleiðni vegur á móti nafnlaunahækkunum í kjölfar nýrra kjarasamninga," að því er segir í Peningamálum Seðlabanka Íslands.

Skráð atvinnuleysi mældist 7,2% í september og hefur lækkað stöðugt frá því að það náði hámarki í apríl þegar það var 9,1%. Að teknu tilliti til árstíðar hefur atvinnuleysi hins vegar aukist jafnt og þétt undangengið ár og var 9,4% í september.

Þróun atvinnuleysis frá því að Vinnumálastofnun jók eftirlit með atvinnuleysisskráningu í apríl bendir til þess að atvinnuleysi hafi í raun aldrei orðið jafn hátt og það var skráð í byrjun árs. Einnig má gera ráð fyrir að atvinnuleysi sé um ½-1 prósentu meira í þessari niðursveiflu en á fyrri samdráttarskeiðum, vegna möguleika starfsfólks og sjálfstætt starfandi til að sækja um atvinnuleysisbætur á móti hlutastarfi.

Spá Seðlabankans frá því í ágúst var byggð á þeim tölum sem þá lágu fyrir og var þar gert ráð fyrir töluvert meira atvinnuleysi á þriðja fjórðungi ársins en varð raunin, eða 9% í stað 7,6%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert