4-5 landsframleiðslur af töpuðum lánum

Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra á Alþingi.
Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra á Alþingi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Á næstu mánuðum munu hér á landi fara fram mestu afskriftir á lánum, í hlutfalli við stærð hagkerfis, sem um getur í sögu vestrænna hagkerfa. Þetta sagði Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, á Alþingi í dag. Líklega tapast fjórar til fimm landsframleiðslur í þessum afskriftum,” sagði Gylfi.

Hann minnti þó á að megnið af þessum afskriftum lendir á erlendum kröfuhöfum bankanna, þótt einnig verði þungar búsifjar hjá Íslendingum vegna þeirra. Gylfi var að svara fyrirspurn frá Guðlaugi Þór Þórðarsyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, um afskriftir skulda og samkeppnisstöðu fyrirtækja utan dagskrár á þinginu.

Guðlaugur Þór sagði að íslensk fyrirtæki skuldi  tólf til fjórtán þúsund milljarða króna. Framundan séu mestu eignatilfærslur í Íslandssögunni. „Hverjir munu sitja uppi með eignirnar og hvernig verður borgað fyrir þær? Hverjir munu hagnast á uppsveiflu sem verður á næstu árum, nema stjórnvöldum takist gersamlega að klúðra málum,” spurði Guðlaugur Þór.

Guðlaugur Þór spurði meðal annars hvort ráðherrann teldi að samkeppnissjónarmiða hefði verið gætt hingað til, við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja, nægilegt gegnsæi hefði verið viðhaft og hvort að viðmið um afkomu eigenda fyrirtækjanna, um það hvort þeir fái að halda fyrirtækjunum, væru nógu gegnsæ.

Gylfi sagði að allir bankarnir hafi nú sett sér verklagsreglur um þessi mál. Hann teldi þær vera skynsamlegar en einnig þyrfti að liggja fyrir að farið sé eftir þeim reglum. Þess vegna hafi verið ákveðið að skipa sérstaka nefnd sem á að fylgjast með þessum málum. ,,Ekki er rétt að ég sem ráðherra gefi út einhverja línu fyrir hana hér, með því að lýsa því yfir hér og nú hver eigi að verða niðurstaðan úr slíkri rannsókn,” sagði Gylfi.

„Þessi endurskipulagning verður að langmestu leyti unnin í bönkunum. Það stendur upp á löggjafann að búa til ramma sem bankarnir starfa innan, gera kröfur til bankanna um gegnsæi verkferla og slíkt. Það hefur verið gert. Einn liður í því var að skipa nefnd,” sagði Gylfi þegar Guðlaugur Þór hafði gagnrýnt hann fyrir að svara ekki spurningum sínum.

„Nú er þessi rammi kominn og eftirlitið er til staðar. Þetta er held ég eins og það á að vera. Auðvitað getur komið upp misferli og þá á að draga það fram í dagsljósið. En það á ekki að handstýra þessu ferli, ekki úr sölum Alþingis eða annars staðar. Það væri versta leiðin,” sagði Gylfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert