Ætla má að 50 þúsund Íslendingar hafi veikst nú þegar í inflúensufaraldrinum, að sögn Haraldar Briem sóttvarnarlæknis. Í morgun kom í ljós að næsta sending bóluefnis yrði minni og bærist einhverjum dögum síðar til landsins en gert hafði verið ráð fyrir og því tefst almenn bólusetning aðeins.
Landsmenn allir geta pantað tíma á heilsugæslustöðvum fyrir bólusetningu gegn inflúensu A(H1N1) frá og með mánudegi 16. nóvember. Viku síðar, mánudaginn 23. nóvember, verður byrjað að bólusetja þá sem fyrstir skráðu sig.
Vonir stóðu til þess að unnt yrði að hefja almenna bólusetningu fyrr. Hins vegar kom fram í morgun, á símafundi sóttvarnalæknis með sóttvarnalæknum, lögreglustjórum og fulltrúum heilbrigðisstofnana og almannavarnadeildar um allt land, að borist hefðu óvæntar fregnir um að næsta sending bóluefnis yrði minni og bærist einhverjum dögum síðar til landsins en gert hafði verið ráð fyrir.
Alls hafa verið bólusettir um 30.000 manns hérlendis og áfram verður haldið af fullum krafti að bólusetja sjúklinga í skilgreindum forgangshópum með því bóluefni sem til er og með bóluefni sem væntanlegt er næstu tvær vikurnar, að því er segir í tilkynningu.
„Starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar hafa vissar áhyggjur af því að sjúklingar í skilgreindum forgangshópum og vanfærar konur skili sér ekki eins vel til bólusetningar og æskilegt væri, sjálfra þeirra vegna og samfélagsins. Sóttvarnalæknir hvetur því vanfærar konur og þá sem eru með „undirliggjandi sjúkdóma“ til að panta þegar í stað tíma fyrir bólusetningu á næstu heilsugæslustöð.
Þá er eindregið mælst til þess að aðstandendur barna, ungmenna og aldraðra með „undirliggjandi sjúkdóma“ sjái til þess að viðkomandi láti bólusetja sig."
Fram kom í máli Haraldar Briem sóttvarnalæknis á símafundinum í morgun að inflúensan sé ekki lengur í sókn, þegar litið er á landið í heild, sem ekki síst sé að þakka því hve margir hafi verið bólusettir úr þeim hópum sem veikir eru fyrir.
„Mótstaðan gegn útbreiðslu inflúensunnar í samfélaginu fer vaxandi þegar fjöldi bólusettra bætist við þann hóp sem þegar hefur fengið sjúkdóminn. Einnig má ætla að notkun inflúensulyfja hafi stuðlað að því að draga úr útbreiðslu inflensunnar og alvarlegum afleiðingum hennar.
Afleiðingar inflúensufaraldursins geta verið mjög alvarlegar eins og dæmin sanna hérlendis og erlendis. Bólusetning er því sjálfsagður hlutur, enda fullvíst og margsannað að bóluefnið veitir góða vörn gagnvart veikinni. Ekki er vitað um nein tilfelli alvarlegra aukaverkana bólusetningar, hvorki hérlendis né erlendis," að því er fram kemur í tilkynningu.