„Það sem skiptir máli er hvernig að skýrslutökunni er staðið, en ekki hvar hún fer fram,“ segir Helgi I. Jónsson, dómstjóri í Héraðsdómi Reykjavíkur, spurður um gagnrýni sem fram kom hjá Braga Guðbrandssyni, forstjóra Barnaverndarstofu, í frétt í blaðinu í gær.
Bragi segir í viðtalinu að það sé sitt mat að útilokað hefði verið að ná fram þeim upplýsingum frá barninu sem komu fram í gegnum tjáningu þess án þess að fyrir hendi hefði verið kunnátta og leikni þeirra sérfræðinga sem starfa í Barnahúsi og hins vegar aðstæður og umhverfi sem þar er. Þessi niðurstaða hefði aldrei náðst í dómhúsi þó svo að þar sé séraðstaða.
Helgi I. Jónsson segir það reglu í Héraðsdómi Reykjavíkur að þegar um svo ungt barn er að ræða eins og í ofangreindu máli sé haft samband við Barnahús og beðið um að kunnáttumaður komi í héraðsdóm til að taka skýrslu af því. „Skal fullyrt að þær upplýsingar, sem náðust fram með umræddri yfirheyrslu í Barnahúsi, hefðu fengist við yfirheyrslu í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þannig er því harðlega mótmælt að börn, sem búa í Reykjavík, sitji ekki við sama borð og önnur.“Helgi segir að í dómsniðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness í þessu tiltekna máli sé stuðst við ýmislegt annað en það sem fram kom við yfirheyrsluna í Barnahúsi.
Nánar um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.