Landsbankinn (NBI) hefur vísað máli sem tengist fjárfestingasjóði á vegum Landsvaka til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra. Snýr málið að skuldabréfi sem sjóðurinn keypti af Björgólfi Guðmundssyni þáverandi formanni bankaráðs Landsbankans árið 2005 en kaupin voru brot á fjárfestingastefnu sjóðsins.
Fram kemur í tilkynningu sem stjórn Landsvaka hf. hefur sent Kauphöll Íslands að slitameðferð fjárfestingasjóðsins Fyrirtækjabréf Landsbankans hafi staðið yfir frá því hann lokaði þann 6. október 2008.
Sjóðurinn hafði verið starfræktur með nokkrum breytingum frá árinu 1990 undir merkjum Landsbréfa og síðar Landsvaka hf. dótturfélags Landsbanka Íslands hf. og nú dótturfélags NBI hf. (Landsbankans), að því er segir í tilkynningu.
Fram kemur einnig að hlutdeildarskírteinishöfum hafi verið greitt úr sjóðnum eftir því sem eignum hefur verið komið í verð. Eins og fram kemur í fyrrnefndri tilkynningu bar sjóðnum að fjárfesta í skuldabréfum fyrirtækja, fjármálastofnana, ríkis og sveitarfélaga.
Andvirði skuldabréfsins 400 milljónir króna
Sjóðurinn keypti engu að síður árið 2005 skuldabréf á einstakling. Andvirði þess nam 400 milljónum króna sem þá var óverulegur hluti heildareigna sjóðsins Fram kemur í tilkynningu Landsvaka hf. að greitt var af skuldabréfinu samkvæmt samningi framan af, og síðar var hluta af eftirstöðvum skuldajafnað. Nú nema eftirstöðvar bréfsins um 190 milljónum króna.
Skuldabréfið var gefið út af Björgólfi Guðmundssyni sem var þá formaður bankaráðs Landsbanka Íslands hf. og einn aðaleigandi bankans. Eftir bankahrunið tóku nýir stjórnendur við rekstri Landsvaka hf. og ný stjórn var skipuð.
Hlutdeildarskírteinishafar verða ekki fyrir tjóni
Það var mat þeirra stjórnenda sem þá tóku við, að kaup á áðurnefndu skuldabréfi væri brot á fjárfestingarstefnu sjóðsins. Þegar ljóst varð að skuldari bréfsins myndi ekki standa skil á eftirstöðvum við lokun sjóðsins var það óhjákvæmileg niðurstaða, sem m.a. er byggð á óháðri lögfræðiúttekt, að Landsvaki yrði að bera tjónið sem af brotinu leiðir.
Hlutdeildarskírteinishafar verða því ekki fyrir tjóni af þessum sökum. Bankaráð NBI hf. (Landsbankans) hefur jafnframt fallist á að tryggja rekstrarhæfi Landsvaka með því að leggja félaginu til nýtt eigið fé svo öllum eiginfjárkröfum yfirvalda um reksturinn verði mætt.
Gert í andstöðu við almenna starfsmenn
Engar bókanir finnast í fundargerðum Fjárfestingaráðs Fyrirtækjabréfa Landsbankans er varða ákvörðunina um kaup á fyrrgreindu skuldabréfi. Gjörningur þessi var gerður í andstöðu við almenna starfsmenn, en þeir sem tóku um hann ákvörðun hafa allir hætt störfum fyrir bankann og Landsvaka hf.
„Vart þarf að taka fram að bankaráð NBI hf. (Landsbankans) harmar þetta atvik og þau óþægindi sem það hefur valdið. Landsbankinn hefur vísað málinu til rannsóknar hjá Efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra. Fjármálaeftirlitinu hefur áður verið gerð grein fyrir því og Rannsóknarnefnd Alþingis fengið afhent öll gögn er það varða," að því er segir í tilkynningu.