Pétur Kr. Hafstein, forseti kirkjuþings, vakti máls á því í ræðu sinni við setningu Kirkjuþings í dag að alvarlega bæri að „íhuga hvort ekki sé tímabæt að stíga það afdráttarlausa skref í átt til aukins lýðræðis innan þjóðkirkjunnar að allt þjóðkirkjufólk en ekki aðeins trúnaðarmenn í sóknarnefndum njóti kosningaréttar til kirkjuþings.“
Sjálfur sagðist Pétur telja það gerlegt að fara þá leið, annaðhvoft samhliða sveitarstjórnarkosningum eða með rafrænni kosningu á vef kirkjunnar. „Vitaskuld yrði kjörsókn í engu samræmi við kjörsókn í kosningum til sveitarstjórna eða Alþingis, að minnsta kosti ekki fyrst um sinn, en það skiptir þó ekki öllu máli,“ sagði Pétur.
„Miklu mikilvægara er hitt að með þessu móti yrði tryggður réttur þess þjóðkirkjufólks til áhrifa innan kirkjunnar, sem á annað borð lætur sig málefni hennar einhverju skipta – og það fólk er margfalt fleira en sóknarnefndarfólk. Þjóðkirkjan þarf vissulega á auknum styrk að halda í umróti samtímans og til þess að efla ímynd kirkjunnar sem lýðræðislegrar fjöldahreyfingar þarf að leita nýrra og óhefðbundinna leiða. Þetta vil ég biðja þingheim að vega og meta af kostgæfni og alvöru.“
Kirkjuþing fer með æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar og samkvæmt núverandi fyrirkomulagi eiga þar sæti 29 kjörnir fulltrúar, þar af 12 vígðir menn og 17 lekmenn, auk þess sem biskup Íslands, tveir vígslubiskupar og einn fulltrúi guðfræðideildar Háskóla Íslans hafa þar málfrelsi og tillögurétt.