Ekki orðið var við ugg í Brussel

Össur Skarphéðinsson ásamt Olli Rehn, stækkunarstjóra ESB.
Össur Skarphéðinsson ásamt Olli Rehn, stækkunarstjóra ESB. mbl.is/Ómar

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segist ekki hafa orðið var við ugg í Brussel vegna aukinnar andstöðu Íslendinga við inngöngu í Evrópusambandið, eða þá vegna ummæla Steingríms J. Sigfússonar á Norðurlandaráðsþingi á dögunum, þess efnis að Íslendingar hafi ekki áhuga a inngöngu í ESB.

Vitnað er í Morgunblaðinu til umfjöllunar í vefmiðlinum EU Observer, þar sem kemur m.a. fram að ummælum Steingríms J. Sigfússonar hafi ekki verið tekið fagnandi í Brussel. Áhyggjur séu farnar að gera vart við sig um að íslensku aðildarumsóknarinnar bíði sömu örlög og í Noregi, þar sem aðild hefur verið hafnað í tvígang.

„Ég hef ekki heyrt ummæli Steingríms nákvæmlega, sem hann lét falla á Norðurlandsráðsþingi, en geri ráð fyrir að hann hafi verið að vísa til þeirrar staðreyndar að nýleg skoðanakönnun á þeim tíma bendir til þess að stuðningur við ESB hafi minnkað töluvert núna allra síðustu mánuði," segir Össur í samtali við fréttavef Morgunblaðsins.

Ómaklegt að nota Icesave-deiluna

Össur segir niðurstöður skoðanakannana ekki koma sér á óvart. Þetta sé það tímaskeið sem Íslendingar hafi átt í erfiðustu milliríkjadeilum sem þeir hafi lent í. „Það hefur ekki farið fram hjá neinum að andstæðingar ESB hafa notað Icesave-deiluna til að halda því fram að Evrópusambandið hafi leynt og ljóst grafið undan Íslendingum. Það er hins vegar ómakleg ásökun og hefur margoft komið fram hjá forystu Evrópusambandsins að hún lítur á Icesave-deiluna sem algjörlega ótengda umsókninni um ESB," segir Össur.

Utanríkisráðherra segist gera ráð fyrir því að afstaða Íslendinga til ESB færist í svipað horf og áður. þegar deilan um Icesave er frá, og tíminn líður. Ekki megi gleyma því að undanfarinn áratug hafi skoðanakannanir sýnt meirihlutafylgi við umsókn um aðild að ESB.

„Mín niðurstaða er sú að það hefur fyrst og fremst verið Icesave sem tímabundið hefur grafið undan Evrópusambandinu. Mitt hlutverk sem utanríkisráðherra er að fylgja fram samþykkt löggjafans, það geri ég af einurð og festu. Hlutverk okkar er að koma heim með sem bestan samning, þar sem hagsmunir Íslendinga eru varðir og nýir eru sóttir. Sem betur fer er lýðræði á Íslandi og það verður þjóðin sem tekur afstöðu til þessa máls. Lýðræðið felur líka í sér skoðanafrelsi og réttinn til að tjá skoðanir sínar. Umsókn um aðild að ESB bannar engum að tjá sig um málið. Afstaða til ESB hefur alltaf verið umdeild á Íslandi en það verður lýðræðið sem ræður," segir Össur ennfremur.

Hann segist ekki hafa orðið var við að tímabundnar skoðanakannanir á Íslandi hafi valdið ugg í brjóstum þeirra innan ESB sem Ísland þarf að semja við. Það hafi áður gerst að þjóðir hafi verið skiptar að skoðunum, líkt og hjá Möltu, sem fór síðar inn í ESB. Þar í landi sé yfirgnæfandi stuðningur við þá ákvörðun.

Umsókn Íslands um aðild kemur væntanlega á dagskrá framkvæmdastjórnar ESB í desember eða mars, og þá hvort Ísland verði úrskurðað umsóknarríki með formlegum hætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert