Femínistafélag Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem framferði fjármálastjóra Knattspyrnusambands Íslands, og viðbrögð sambandsins í kjölfarið, eru fordæmd. Femínistafélagið krefst þess að stjórnin segi af sér og fjármálastjóranum verði vikið úr starfið hið fyrsta.
Í yfirlýsingunni segir að fréttir af heimsókn fjármálastjórans á súlustað í Sviss hafi vakið verðskuldaða athygli í samfélaginu á undanförnum dögum, enda sé fáheyrt að menn sem gegni trúnaðarstörfum fyrir samtök sem kenna sig við forvarnir og heilbrigt líferni „verði uppvísir að iðju sem tengist skipulagðri glæpastarfsemi, misnotkun á bágri stöðu kvenna og það með kreditkort vinnuveitandans upp á vasann.“
„Knattspyrnusamband Íslands er regnhlífarsamband fyrir stærstu íþrótt á Íslandi sem á að vera uppbyggileg og þroskandi fyrir fólk á öllum aldri. Eðlileg og sjálfsögð krafa samfélagsins er að stjórn þess og fólk sem þar gegnir trúnaðarstörfum hagi sér í samræmi við þá ábyrgð sem það ber,“ segir í yfirlýsingunni.
„Árið 2006 sendi Íþróttasamband Íslands frá sér yfirlýsingu, þar sem vændi og mansal var fordæmt í tengslum við heimsmeistaramótið í knattspyrnu sem fram fór í Þýskalandi. Þar segir m.a. „Megininntak íþrótta er mannleg reisn og heilbrigt líferni.“ Þarft er að rifja upp í þessu samhengi að KSÍ neitaði að leggja baráttunni gegn vændi og mansali lið á mótinu þrátt fyrir fjölmargar áskoranir, m.a. frá 14 kvennasamtökum og jafnréttisnefnd Reykjavíkur.
Ljóst er að Knattspyrnusamband Íslands hefur brugðist hlutverki sínu stórkostlega. Áhugafólk um knattspyrnu og íþróttir á betra skilið.“