Laug umferðarlagabroti upp á íslenska konu

Tuttugu og sjö ára gamall enskur sjúkraflugmaður hefur verið dæmdur í 4 mánaða fangelsi fyrir að ljúga að lögreglu til að komast hjá því að greiða hraðasekt eftir að myndir af honum náðust á umferðarmyndavél. Maðurinn fullyrti, að nafngreind íslensk kona hefði ekið bílnum en í ljós kom að konan hafði ekki komið til Englands í þrjú ár. 

Fjallað hefur verið um málið í héraðsfréttablöðum í Plymouth á Englandi undanfarnar vikur. Fram kemur á vefnum westernmorningnews.co.uk í dag, að maðurinn hafi nú verið dæmdur í fangelsi fyrir að hindra framgang réttvísinnar.

Hraðamyndavél mældi Joseph Drury í febrúar sl. á 100 km hraða á vegarkafla í Plymouth þar sem hámarkshraðinn er 65 km á klst. Þegar hann fékk svo hraðasektina í hendur hélt hann að hún yrði til þess að hann myndi missa bílprófið því hann væri kominn með of marga punkta í ökuferilskrá sína. Hann reyndi því allt sem hann gat til að komast hjá því að greiða sektina og fullyrti að íslenska konan hefði ekið bílnum. Hann lét lögregluna einnig  hafa flugdagbækur þar sem stóð að hann hefði verið í flugi á umræddum tíma. Síðar kom í ljós að flugmaðurinn falsaði gögnin.

Fram kom við réttarhöldin, að Drury taldi að lögreglan myndi ekki fylgja málinu eftir þar sem hinn meinti bílstjóri væri ekki á Englandi en íslenska konan fékk bréf nokkru síðar og fór þá í breska sendiráðið í Reykjavík og sagði farir sínar ekki sléttar.  Hún sagðist ekki hafa komið til Englands í þrjú ár og óttaðist að lenda í vandræðum vegna þessa óvenjulega máls ef hún færi þangað síðar. 

Lögreglan hafði þá á ný samband við Drury sem hélt áfram að halda fram sakleysi sínu. En við rannsókn kom í ljós, að flugvélin, sem Drury sagðist hafa verið að fljúga á þessum tíma, var í umfangsmikilli skoðun og ekki flughæf. Þá komst allt upp.  

Lögmaður Drury sagði, að skjólstæðingur sinn ætti það til að hegða sér heimskulega undir álagi. Hann þyrfti oft að fljúga sjúkraflug með skömmum fyrirvara og í mikilli flugumferð. Nú hefði hann misst flugréttindin vegna málsins.

Dómarinn sagði hins vegar, að hegðun Drurys væri til þess fallin að grafa undan trausti almennings á lögreglu- og réttarkerfinu og ekki væri hægt að þola hana.  

Í ljós hefur einnig komið, að  Drury var fyrir með 6 punkta en ekki 9 í ökuferilsskránni og hefði því ekki misst prófið þótt hann hefði viðurkennt brot sitt strax og greitt sektina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert