Stjórn Brunavarna Suðurnesja lítur svo á að heilbrigðisráðuneytið hafi einhliða sagt upp samningum um sjúkraflutninga á Suðurnesjum. Þetta kemur fram í Víkurfréttum í dag. Takist ekki nýir samningar milli ríkisins og Brunavarna Suðurneskja verða sjúkraflutningar á svæðinu alfarið á ábyrgð ríkisins eftir mitt næsta ár.
Víkurfréttir segja frá því að stjórn Brunavarna Suðurnesja hafi fundað í vikunni um sjúkraflutningasamning á Suðurnesjum utan Grindavíkur. Á fundinum hafi Jón Guðlaugsson, slökkviliðsstjóri, gert grein fyrir fundi sem hann átti með Sjúkratryggingum Íslands í lok október þar sem fram kom að heilbrigðisráðuneytið muni, samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi, einhliða lækka greiðslur til Brunavarna Suðurnesja vegna sjúkraflutninga.
Ljóst sé að þar með muni hlutur sveitarfélagsins í kostnaði vegna þessarar þjónustu aukast verulega. Raunkostnaður B.S. af sjúkraflutningum síðustu 12 mánuði er tæpar 138 milljónir króna samkvæmt Víkurfréttum, en samningur milli ráðuneytis og B.S. gerir ráð fyrir 70 milljón króna greiðslu.
Brunavarnir Suðurnesja líta svo á að með einhliða ákvörðun ráðuneytisins sé í reynd verið að segja upp samningnum þeirra á milli. Víkurfréttir hafa eftir Jóni Guðlaugssyni slökkviliðsstjóra að staðan sé alvarleg. Boltinn sé núna hjá heilbrigðisyfirvöldum.