Friðarsúlan í Viðey er það listaverk sem Yoko Ono segist vera stoltust af, að því er fram kemur í Times Live veftímaritinu. "Það er eitthvað svo fallegt við þetta land [Ísland]. Íslendingar treysta ekki á olíu sem orkugjafa og landið er svo hreint að þú finnur fyrir hreinleikanum innra með þér," segir Yoko Ono.
Í viðtalinu í Times Live, er nefnist Ein mínúta með Yoko Ono, segist hún vera þakklát fyrir að vera í þeirri stöðu að gæta arfleiðar Johns heitins Lennons. Það hafi verið hans vilji. „Við vorum bæði listamenn og skildum nákvæmlega hvernig það er þegar ekki er farið vel með listaverk þitt. Ég geri mitt besta til að tryggja að farið sé vel með hans verk," segir Ono ennfremur.
Um nýja tölvuleikinn með Bítlunum segir hún það vera aðra byltingu á eftir þeirri tónlist. Með tölvuleiknum hafi verið búinn til heimur tónlistar og myndlistar. „Tónlist og myndlist gefa bæði líknandi strauma og með slíkum straumum getum við búið til þann heim sem okkur hefur dreymt um, friðarveröld."