Stuðla þarf að nýjum lífsstíl

Ragna Árnadóttir ráðherra kirkjumála, Karl Sigurbjörnsson biskup og séra Þorvaldur …
Ragna Árnadóttir ráðherra kirkjumála, Karl Sigurbjörnsson biskup og séra Þorvaldur Karl Helgason við setningu kirkjuþings. Ómar Óskarsson

„Ríkidæmi sem byggt hefur á lánum og skuldsetning undangenginna ára getur ekki talist auðlegð,“ sagði Karl Sigurbjörnsson biskup við setningu kirkjuþings. Eitt mikilvægasta verkefnið nú er að stuðla að nýjum lífsstíl, að mati biskups.

Sá nýi lífsstíll „virðir takmörk auðlinda og uppörva kristið siðgæði, virðingu og hófsemi, samstöðu, náungakærleika.“ 

Kirkjuþing 2009 hófst í morgun kl. 9.00 með helgistund í Grensáskirkju. Ávörp við þingsetningu fluttu Ragna Árnadóttir, dómsmála - og mannréttindaráðherra og Pétur Hafstein, forseti kirkjuþings.

Biskup vék m.a. að hjálparstarfi en kirkjuþing mun vekja sérstaka athygli á Hjálparstarfi kirkjunnar. Karl sagði það eina alvarlegustu afleiðingu efnahagshrunsins að auðugar þjóðir hafi dregið úr þróunaraðstoð og neyðarhjálp. Hann nefndi sérstaklega Þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna um að helminga fjölda hungraðra fyrir árið 2015.

„Við Íslendingar skuldbundum okkur gagnvart þúsaldarmarkmiðunum og að lyfta okkur upp úr þeirri smán, að við, ein ríkasta þjóð heims, höfum staðið langt að baki þeim þjóðum sem við vildum mæla okkur við í framlögum til þróunaraðstoðar.

Og nú þegar þrengir að hjá okkur er illt til að vita að við hlaupum frá skuldbindingum okkar og vörpum frá okkur ábyrgð. Það er ekki gæfumerki,“ sagði biskup.

„Þróunaraðstoð er ekki ölmusa, molar af borði hins ríka sem hent er í þurfalinginn, heldur aðstoð til sjálfshjálpar. Það vinnst einungis með langvarandi samskiptum sem reist eru á gagnkvæmu trausti.

Þrátt fyrir þau áföll sem þjóðarbúið og ríkissjóður verður fyrir, erum við enn vellauðug sem þjóð. Við erum ekki á vonarvöl. Við búum við auðsældarkreppu, munaðarkreppu.

Samstarfsþjóðir okkar í Afríku búa við langvarandi örbirgð, viðvarandi kreppu. Við getum hjálpað þeim! Hin kristnu grunngildi, samkennd, meðlíðan og umhyggja fyrir öðrum eru mælikvarði á mennsku, krafa sem hverfur ekki þó þröngt sé í búi.“

Ávarp Karls Sigurbjörnssonar biskups

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert