Þeim ummælum Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra að Íslendingar hafi ekki áhuga á að ganga í Evrópusambandið hefur ekki verið tekið fagnandi í Brussel, enda áhyggjur farnar að gera vart við sig um að íslensku aðildarumsóknarinnar bíði sömu örlög og í Noregi, þar sem aðild hefur verið hafnað í tvígang, árin 1972 og 1974.
Þetta kemur fram í úttekt Leigh Phillips, blaðamanns hjá vefmiðlinum EU Observer, sem, eins og nafnið gefur til kynna, sérhæfir sig í málefnum Evrópusambandsins.
Phillips ber þessi ummæli undir Amadeu Altafaj i Tardio, starfandi talsmann stækkunarskrifstofu ESB, sem segir þau engin áhrif hafa á umsóknarferlið, en bætir við:
„En setjum hlutina í samhengi. Það voru Íslendingar sem sóttu um aðild, en ekki við sem báðum þá um að sækja um,“ sagði Altafaj i Tardio í samtali við Phillips, sem túlkar orð hans svo að í þeim felist aðvörun.