Stofnfundur Íslandsdeildar Attac samtakanna var haldinn í dag. Sjö manna stjórn var kjörinn og skipa hana Árni Daníel Júlíusson, Bjarni Guðbjörnsson, Einar Már Guðmundsson, Guðjón Guðlaugsson, Salvör Gissurardóttir, Sigurlaug Ragnarsdóttir og Sólveig Anna Jónsdóttir.
Fundurinn samþykkti eftirfarandi ályktun:
„Ályktun frá stofnfundi Attac-samtakanna.
Í rúm tuttugu ár hefur Ísland verið tilraunastöð nýfrjálshyggjunnar. Markmiðið var að gera Ísland að fjármálamiðstöð á heimsmælikvarða. Útkoman varð fjármálahrun á heimsmælikvarða sem almenningur á nú að borga fyrir.
Nýfrjálshyggjan hefur of lengi fengið að stunda tilraunir sínar, og tími er kominn til að leggja aðrar áherslur. Nú verður að endurreisa samfélög þau sem rústað hefur verið fyrir tilstilli óheftrar markaðshyggju. Setja verður bönd á fjármálastarfsemi, skattleggja hana í þágu félagslegs jafnréttis og setja samfélögum ný markmið í anda lýðræðis- og velferðarsamfélaga, þar sem manngildi og gegnsæi verði í hávegum höfð.
Líkt og nýfrjálshyggjan var skipuleg framsókn peningaaflanna til að ná hugmyndalegum yfirráðum þarf almenningur nú að skipuleggja sig til að sækja fram til gagnsóknar í þágu réttláts samfélags.
Nýstofnuð Íslandsdeild Attac-samtakanna hyggst beita kröftum sínum í þessum anda. Mikið starf er framundan og Attac hvetur alla sem áhuga hafa að koma til starfa.
Stofnfundur Íslandsdeildar Attac-samtakanna.“