"Staðan er á uppleið. Það hefur lítið drepist í dag," sagði Einar Einarsson, loðdýrabóndi á Syðra-Skörðugili í Skagafirði, en hann hefur orðið fyrir miklu tjóni vegna smitandi lungnapestar sem kom upp í minkabúinu.
Byrjað var að gefa minkunum súlfalyf út í fóður fyrir helgi og sagði Einar að það hefði strax farið að hafa áhrif. Mun færri dýr hefðu drepist um helgina en í síðustu viku. Hann sagði að tæplega 2.900 dýr væru nú dauð, en um fjórtán þúsund minkar voru á búinu þegar veikin kom upp.
Engin súlfalyf voru til í landinu þegar dýrin byrjuðu að drepast. Einar sagði að það hefði verið hægt að forða miklu tjóni ef að það hefði verið hægt að grípa til þeirra strax og ljóst var hvað væri að gerast.
Fimmtán manna hópur manna hefur í allan dag unnið að því að bólusetja minkana á búinu, en búið er að bólusetja um 6.000. Bóluefnið var framleitt á Keldum á sex dögum.
Venjulega hefst pelsun á minkabúum í kringum 10. nóvember. Veikin kom því upp skömmu áður en hún átti að hefjast. Öll dýr sem drepast eru pelsuð, en Einar sagði að nokkuð vanti upp á að skinnin hafi náð nægum feldþroska. Skinnin kæmu því til með að falla í verði, en það ætti eftir að koma í ljós hvað verðfallið yrði mikið. Skinn dökkra minnka þroskast aðeins seinna en ljósra dýra og því má búast við að þau skinn falli talsvert í verði.