Hnúfubakurinn sem Hafrannsóknastofnunin merkti heldur sig enn á Faxaflóa. Í morgun kom hann inn á Kollafjörðinn, inn fyrir Seltjarnarnes og var undan Kjalarnesinu klukkan 9:17. Líklega hefur borgarlífið ekki heillað hann því hvalurinn sneri aftur út á Faxaflóann og var suður af Akranesi í hádeginu.
Hnúfubakurinn hafði nú í hádeginu lagt að baki 2.117 km frá því hann var merktur á Eyjafirði þann 21. október 2009. Hvalurinn hélt fljótlega norður í Íslandshaf og var staddur um 180 km norður af Skaga 26. október.
Þaðan synti hnúfubakurinn til suðvesturs og eyddi 4
sólarhringum á litlu svæði um 100 km NV af Horni, en hélt svo að mynni
Ísafjarðardjúps (2. nóvember). Síðan hefur hvalurinn synt suður með
vesturströnd landsins, inn í Breiðafjörð og var að morgni 6. nóvember í
norðanverðum Faxaflóa. Hann hefur haldið sig síðan í Faxaflóa.
Hér er hægt að fylgjast með ferðum hnúfubaksins.