Spjöll voru unnin í Fíladelfíukirkjunni um helgina. Lögreglunni var tilkynnt um innbrotið og spjöllin í morgun. Vörður L. Traustason, prestur safnaðarins, sagði að sá sem þarna var að verki hafi athafnað sig í hluta kirkjunnar sem ekki er varinn af þjófavarnarkerfi en þar er verið að setja upp kerfi.
Spjöllin voru unnin þar sem unglingar og alþjóðastarf kirkjunnar hafa aðsetur í kirkjubyggingunni. Sá sem þarna var að verki braust inn í skrifstofur og stal m.a. harðdiski úr tölvu, en skildi sjálfa tölvuna eftir. Talsverðar skemmdir voru unnar og stolið skiptimynt.
Ekki er ljós hvernig sá sem var þarna að verki komst inn í húsið. Hann gæti mögulega hafa falið sig þar eftir samveru í kirkjunni og farið síðan á stjá þegar aðrir voru horfnir á braut.
Lögreglan vinnur að rannsókn málsins.