Segja áralanga vinnu í hættu

Stykkishólmur.
Stykkishólmur. mbl.is

Áralöng vinna við eflingu atvinnulífsins á landsbyggðinni með fjölgun opinberra starfa er í hættu með fyrirhuguðum aðgerðum ríkisvaldsins, að mati bæjarstjórnar Stykkishólms. Á fundi hennar á dögunum var fjallað um málið og skorað á ríkisstjórnina að hafa sanngirni að leiðarljósi.

Opinber störf í Stykkishólmi eru hátt hlutfall af heildarstörfum þar í bæ. Með sameiningu og fyrirtækja og stofnana, þar sem fjárhagslegur sparnaður er lagður til grundvallar, er hætta á að aukin miðstýring og fjarlægð frá vinnustöðvum verði til þess að störf sogist til Reykjavíkur að nýju, segir bæjarstjórnin. Sameiningar af þessum tagi bitna sömuleiðis fyrst og fremst á fámennum stofnunum.

Í Stykkishólmi fullyrðir bæjarstjórnin að rekstur opinberra starfa á landsbyggðinni sé í alla staði hagkvæmari en sambærilegra starfa á höfuðborgarsvæðinu, sé til að mynda horft til húsnæðiskostnaðar. Því sé nær lagi að renna styrkari stoðum undir opinber störf á landsbyggðinni m.a. með frekari flutningi verkefna til stofnana og fyrirtækja ríkisins sem nú þegar hafi verið valinn staður utan höfuðborgarsvæðisins.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert