Sluppu naumlega úr bruna

Mikið tjón varð í eldinum. Á myndinni er bíll Kristínar …
Mikið tjón varð í eldinum. Á myndinni er bíll Kristínar og Kristjáns sem flúðu út með börn sín. Foto: Kristen Are Figenschau

Íslensk fjögurra manna fjölskylda slapp naumlega þegar eldur kom upp í húsi á pallbíl á tjaldstæði á Hetteng í Storfjord í Noregi aðfaranótt laugardags. Hjón með tvö börn voru inni í húsinu þegar eldurinn kviknaði.

Kristín Hafsteinsdóttir og Kristján Kristbergsson voru ásamt tveimur börnum sínum á ferðalagi í Storfjord þar sem vinafólk þeirra býr. Þau voru á  pallbíl með húsi. Að sögn Kristínar Árnadóttur, móður Kristínar Hafsteinsdóttur, urðu þau fyrst vör við eitthvað óeðlilegt þegar maður kallaði ákaft til þeirra. Þau hröðuðu sér út, en þá var eldur að læsa sig í bílinn. Enginn tími gafst til að bregðast við og brann bíllinn á skömmum tíma og allt sem í honum var. 

Kristín sagði að ekkert lægi fyrir um hvers vegna eldurinn kviknaði. Á norska vefmiðlinum Nordlys segir að hræðileg sjón hafi blasað við slökkviliðinu þegar það mætti á staðinn. Tveir húsbílar brunnu til kaldra kola og einnig grillhús sem var á tjaldstæðinu.

Sterkur vindur var á svæðinu og mjög þykkur reykur. Nordlys hefur eftir talsmanni slökkviliðsins að tekist hafi að forða enn meira tjóni. Sex voru í bílunum tveimur sem brunnu. Farið var með einn mann til læknis vegna gruns um reykeitrun.

Ekki náðist í íslensku fjölskylduna í Noregi, en að sögn Kristínar Árnadóttur, brunnu símar fjölskyldunnar í brunanum. Fjölskyldan hefur búið í Noregi síðastliðin fjögur ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert