Nú hafa 1.120 staðfest komu sína á Þjóðfund 2009 sem haldinn verður í Laugardagshöllinni laugardaginn 14. nóvember n.k. Þegar skráningar voru síðast skoðaðar sást að yngsti fundarmaður er 17 ára og sá elsti 88 ára, samkvæmt upplýsingum frá Þjóðfundi 2009.
Aldursdreifing staðfestra skráninga virðist vera nokkuð jöfn og einnig kynjahlutfall, nema í allra elstu aldursflokkunum.
Fjölmargir einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök hafa lagt sitt af mörkum til að Þjóðfundur verði að veruleika. Útlagður kostnaður við fundahaldið er áætlaður nema um 27 milljónum króna. Ríkisstjórn, Reykjavíkurborg og ríflega 70 fyrirtæki, sveitarfélög, félagasaminatök, stofnanir og einstaklingar eru í hópi stuðningsaðila.
Ríkisstjórnin bættist á föstudag í stuðningshópinn með 7 milljóna króna framlagi, Reykjavíkurborg leggur til Laugardalshöllina, Bændasamtökin bjóða fundargestum upp á kjötsúpu, Skátar leggja til þúsundir klukkustunda í vinnu og tónlistarfólk gefur vinnu sína.
Þá eru ótalin framlög einstaklinga og fyrirtækja í formi peninga og þjónustu. Að undirbúningsstarfinu koma ríflega 300 einstalingar sem sjálfboðaliðar.
Margar fyrirspurnir hafa borist frá erlendum fjölmiðlum um Þjóðfundinn, enda í fyrsta sinn sem heil þjóð sest á fund á þennan hátt. Von er á sjónvarps- og fréttafólki frá ýmsum þjóðlöndum og miðlar á við The Economist hafa tilkynnt komu sína.
Hreyfimyndasíða Þjóðfundar 2009