Dönsku stjórnarflokkarnir hafa náð samkomulagi um að tífalda þá peningaupphæð, sem innflytjendum er boðið vilji þeir snúa aftur til heimalands síns.
Til þessa hafa innflytjendur, sem vilja fara frá Danmörku til landsins þar sem þeir eru upprunnir, fengið 11 þúsund danskar krónur, jafnvirði 275 þúsund króna. Í tengslum við fjárlagagerð fyrir næsta ár náðu Venstre, Íhaldsflokkurinn og Danski þjóðarflokkurinn samkomulagi um að hækka þessar greiðslur í 100 þúsund danskar krónur, jafnvirði nærri 2,5 milljóna íslenskra króna.
„Við töldum mikilvægt að auka þessa fjárhagsaðstoð við innflytjendur svo þeir, sem vilja snúa heim vegna þess að þeir hafa ekki náð að aðlagast dönsku samfélagi, hafi fjárhagslegt bolmagn til að gera það," sagði Søren Espersen, talsmaður Danska þjóðarflokksins í utanríkismálum.
Samkomulagið gerir einnig ráð fyrir að bæjarstjórnir geti fengið fjárstyrk, allt að 20 milljónum danskra króna, til að aðstoða flóttamenn sem vilja snúa heim.
2524 innflytjendur hafa farið frá Danmörku af fúsum og frjálsum vilja frá árinu 1997 þegar heimsendingaráætlunin var tekin upp. Flestir þeirra voru frá fyrrum Júgóslavíu, Írak, Íran, Líbanon, Sómalíu og Tyrklandi.
Um 5,5 milljónir manna búa í Danmörku og eru 7,3% þeirra innflytjendur.