Skemmdarverk var unnið á valtara sem stóð við Oddgeirshólaveg í síðustu viku. Að sögn lögreglunnar á Selfossi var sandur settur í olíutankinn auk þess kviknaði eldur í valtaranum rétt eftir að stjórnandi þess setti hann í gang. Stjórnandanum tókst hins vegar að kæfa eldinn með úlpunni sinni.
Fram kemur á vef lögreglunnar að ekki sé vitað hver eða hverjir hafi verið þarna að verki.
Þá bárust lögreglunni á Selfossi fjórar tilkynningar um innbrot í sumarbústaði í síðustu viku. Í einu
tilviki var farið inn í orlofshús í Ölfusborgum og þaðan stolið ýmsum
munum, svo sem fartölvu. Hún fannst síðar í öðru húsi á staðnum. Þá var
farið inn í bústað í landi Kaldárhöfða, Lækjarbakka og Kiðjabergi. Þjófarnir höfðu á brott ýmis tæki svo sem flatskjái, hljómtæki og
verkfæri.
Um síðustu mánaðamót var bátakerru stolið þar sem hún stóð fyrir utan fyrirtækið Ramma við Óseyrarbraut í Þorlákshöfn. Kerran er lág með átta tommu dekkjum, sex metra löng og hálfur annar metri á breidd.
Þeir sem geta veitt upplýsingar um kerruna eru beðnir að hafa samband við lögreglu í síma 480 1010.