Hvergi í heiminum var ungbarnadauði fátíðari en á Íslandi árið 2007 eða 1,5 af 1.000 lifandi fæddum. Í Evrópu var ungbarnadauði tíðastur í Tyrklandi eða 16,7 af 1.000 lifandi fæddum árið 2007.
Þetta kemur m.a. fram í Landshögum 2009, hagtöluárbók Hagstofu Íslands, sem kemur út í dag. Landshagir eru lykilrit um opinbera hagskýrslugerð á Íslandi og er yfirlit tölulegra upplýsinga um flesta þætti efnahags- og félagsmála.
Í ritinu kemur einnig fram, að fæddir umfram dána voru næstflestir á Íslandi árið 2007 af löndum Evrópu eða 0,84%. Þeir voru flestir á Írlandi eða 0,98%. Þá voru sjúkdómar í blóðrásarkerfi algengasta dánarorsök árið 2008, þar af dóu flestir úr hjartasjúkdómum eða 375.
Meðal annarra upplýsinga í Landshögum eru, að meðaltekjur kvæntra karla árið 2008 var 6,9 milljónir króna en meðaltekjur kvenna 4,3 milljónir króna. Verðbólga á Íslandi var 12,4% árið 2008 en 3,2% árið 2004. Hagvöxtur var 1,3% árið 2008 en 7,7% árið 2004.
Þá eru mjólkurkýr flestar á Suðurlandi eða 37% en sauðfé er flest á Norðurlandi eða 22%.