Brjáluð leið - ekki blönduð leið

Alþingismenn á þingi.
Alþingismenn á þingi. mbl.is/Árni Sæberg

Bjarni Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi harðlega á Alþingi í dag að ekki væri hafin umræða á þingi um það hvernig ætti að loka fjárlagagatinu. Sagði hann að þær hugmyndir um skattkerfisbreytingar, sem fjallað hefði verið um í fjölmiðlum í gær og dag vera um brjálaða leið en ekki blandaða leið eins og  ríkisstjórnin hefði talað um fyrir kosningar.

Bjarni spurði Katrínu Jakobsdóttur, menntamálaráðherra, í fyrirspurnartíma á Alþingi hvort það væri satt, að það standi til að rústa skattkerfinu, taka upp þriggja þrepa skattkerfi og hækka skatta í allt að 50%. „Hvers vegna erum við ekki að ræða þessi mál á þinginu?" spurði Bjarni.

Katrín sagði, rétt að unnið væri enn að útfærslu skattatillagna en talsverður tími væri enn til stefnu þar til önnur umræða um fjárlög fer fram. „Það er rétt að við töluðum um blandaða leið," sagði Katrín, „en það er blönduð leið þess, að skera niður í ríkisútgjöldum og þykir nú mörgum ansi hart fram gengið í þeim efnum... og aukinnar skattheimtu. Þetta kallar þingmaðurinn brjálaða leið sem mér finnst dálítið merkilegt þegar við erum að tala um þrepaskipt skattkerfi eins og hin brjáluðu Norðurlönd hafa til dæmis valið," sagði Katrín. Sagði hún að slíkt kerfi miðaði að því að dreifa byrðunum með réttlátari hætti.

Bjarni sagði, að brjálæðið í þessum hugmyndum lægi í því, að ekki hægt að stórauka álögur á einstaklinga og fyrirtæki meðan kreppan ríkir. Þá hefði ríkisstjórninni gersamlega mistekist að draga hingað nýja fjárfestingu. Einnig væri ríkið að skila verri afkomu en lagt var upp með svo ríkið væri einnig að klúðra því að sýna aðhald og sparsemi í eigin rekstri. Loks væru nýju skattarnir, sem samþykktir voru í sumar, ekki að skila því sem að var stefnt. „Þetta ættu menn að láta sér verða að lexíu. Það er ekki hægt að auka tekjur ríkisins endalaust með því að hækka skatta," sagði Bjarni.

Skattaumræðan hélt áfram í fyrirspurnartímanum og tókust þær Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks og Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, m.a. á um orkuskatta.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert