Landeyjahöfn kostar 3,5 milljarða

Séð yfir til Vestmannaeyja frá Landeyjahöfn.
Séð yfir til Vestmannaeyja frá Landeyjahöfn. Eyjafrettir.is

Áætlað er að Landeyjahöfn í Bakkafjöru muni kosta 3,5 milljarða. Fjárveiting til og með árinu 2009 er 1.935 millj. kr. og hefur hún verið tryggð að fullu, samkvæmt svari Kristjáns L. Möller samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Eftir er að tryggja fé til lokaáfanga.

Guðrún Erlingsdóttir varaþingmaður beindi fyrirspurn til ráðherrans  um framkvæmdir við Landeyjahöfn (Bakkafjöruhöfn). Hún spurði hvort ráðherrann hyggðist tryggja nægt fé til að ljúka framkvæmdum við Landeyjahöfn þannig að siglingar Herjólfs geti hafist þaðan í júlí 2010. 

Í svari ráðherrans segir að í fjárlagafrumvarpi 2010 séu verkinu tryggðar 770 millj. kr. Ætlunin er að bjóða út nú á næstunni þrjá verkþætti, þ.e. smíði þjónustuhúss, smíði ekjubrúar og dýpkun hafnar og innsiglingar.

Þegar þau tilboð liggja fyrir verður ljóst hversu mikið fé vantar til að klára það sem þarf til þess að siglingar geti hafist í júlí á næsta ári og verður það þá verkefni samgönguyfirvalda að tryggja fé til að þessi áform gangi eftir.

Guðrún spurði einnig um hvaða hugmyndir séu um almenningssamgöngur á landi til Reykjavíkur frá Landeyjahöfn. Ráðherrann svaraði því að þar á milli verði almenningssamgöngur en ekki sé búið að útfæra þær. Þannig liggur ferðafjöldi ekki fyrir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert