„Ég get staðfest að það er verið að skoða mismunandi tekjuskattsþrep. Það er ekki komin endanleg niðurstaða í þá vinnu. Við höfum verið að skoða ýmsar leiðir til þess að dreifa skattbyrðinni á sem bærilegastan hátt þar sem reynt er að hlífa lægstu laununum eftir því sem kostur er. Í því samhengi hafa menn vissulega skoðað fleiri þrep í skattkerfinu,“ segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra um fyrirhugaðar skattahækkanir ríkisstjórnarinnar.
Í fréttum RÚV í gærkvöldi var því haldið fram að hæsta tekjuskattsþrepið yrði miðað við 500.000 krónur á einstakling, eða 47,1%, þrepið í miðjunni við 41,1% og það lægsta þar fyrir neðan, eða 36,1%.
Til samanburðar er tekjuskattur 37,2% í dag og persónuafsláttur 42.205 krónur á mánuði. Ofan á þetta leggst 8% hátekjuskattur á mánaðartekjur yfir 700.000 kr.
Steingrímur segir hækkanirnar lið í að ná fjárlagahallanum úr rúmlega 180 milljörðum króna í ár niður fyrir 100 milljarða króna á næsta ári.
Inntur eftir áðurgreindum tölum kveðst Indriði H. Þorláksson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, ekki geta staðfest þær, en segir stefnt að því skattar hækki mjög lítið á þá sem séu í neðri hluta tekjuskalans, með miðlungstekjur eða minna og nefnir aðspurður að meðaltekjur hjóna séu 600.000 krónur á mánuði.
Spurður hvort ákveðið hafi verið að falla frá auðlinda- og orkuskatti segir hann enga ákvörðun hafa verið tekna um það, né hvort lagður verði á kolefnisskattur.