Óhófleg framganga sumra rjúpnaveiðimanna á Öxarfjarðarheiði hefur vakið sterk viðbrögð heima í héraði og víðar. Stefán Eggertsson oddviti Svalbarðshrepps hefur ekki trú á að bann við sölu á rjúpum verði virt. Hann á von á að málið verði rætt á næsta hreppsnefndarfundi.
„Það fer í skapið á mörgum þetta mikla dráp sem er búið að vera núna,“ sagði Stefán. „Það hefur verið töluvert af fugli og það er fráleitt að menn hafi orðið varir við að hann hafi verið skotinn í hófi. Svo er hitt sem er kannski enn vítaverðara, það er ofnotkun á tækjum sem er hrikaleg.“
Stefán sagði að menn hafi bæði ekið bílum og fjórhjólum þvers og kruss um heiðar, einkum Öxarfjarðarheiði. Hann segir erfitt að veita mönnum aðhald þegar kemur langt inn á heiðarnar. Stefán sagði einnig mjög loðið hvar fara megi um á fjórhjólum. Hann hafði heyrt að nánast hafi verið kappakstur veiðimanna um veiðilöndin.
Heiðarlöndin eru ýmist í einkaeign eða viðurkenndir almenningar. Stefán sagði óvissu ríkja um yfirráð á stórum svæðum. Óbyggðanefnd hafi höfðað mál gegn jörðum í héraðinu vegna þess sem hún telur þjóðlendur. Flest allir bændur hafi áfrýjað héraðsdómum sem féllu þar að lútandi í haust.
Margar leiðir eru inn á heiðarnar. Sumar liggja um eignarlönd og einnig eru afréttavegir sem hafa verið kostaðir af fjallvegasjóði. Ekki má loka þeim nema hætta sé á að þeir liggi undir skemmdum. Þeirri heimild var m.a. beitt til að loka Dalsheiðarvegi upp úr Laxárdal á Öxarfjarðarheiði.
Dalsheiðarvegur er að miklu leyti moldarslóði sem þolir enga umferð í bleytum og votviðri eins og verið hefur frá því rjúpnaveiðin byrjaði.
Stefán kvaðst vona að almenningsálitið geti haft þau áhrif að veiðimenn verði ekki jafn stórtækir í rjúpnaveiðinni og dæmi eru um á þessu svæði undanfarið. Rjúpnastofninn sé veikur en nú séu snjóalög þannig að auðvelt sé að finna rjúpuna. Hún sitji í stökum fönnum.
Bannað er að selja rjúpur en Stefán hafði ekki trú á að það bann skipti miklu máli. „Sölubannið hefur sáralítið að segja. Það er svipað og að segja að það sé bannað að selja landa eða heimaslátrað kjöt,“ sagði Stefán. Hann sagðist ekki mundi vilja standa í því að framfylgja rjúpnasölubanni.
„Það er frekar að elta uppi þá sem keyra um utan vega og skjóta rjúpur beint af ökutækjunum,“ sagði Stefán.