Viðskiptaráð Íslands telur hugmyndir um fjölþrepa skattlagningu launatekna hvorki til þess fallnar að efla tekjugrunn hins opinbera né hraða því endurreisnarstarfi sem framundan er í íslensku efnahagslífi.
Viðskiptaráð segir í tilkynningu, að fjölþrepa skattkerfi leiði sjálfkrafa til hækkunar jaðarskatta, enda standi launþegar frammi fyrir hækkandi skattprósentu með auknu vinnuframlagi. Háir jaðarskattar auki hvata til undanskota og skattsvika auk þess sem þeir dragi úr hvata til aukins vinnuframlags og verðmætasköpunar.
„Hagfellt skattkerfi er einn helsti grundvöllur langtímasamkeppnishæfni þjóða og mikilvæg forsenda þess að bati hagkerfisins verði sem skjótastur. Þrátt fyrir efnahagshrun og erfiða skuldastöðu hins opinbera gilda ennþá grundvallarlögmál hagfræðinnar hér á landi. Í stað þess að reyna að taka sem stærsta sneið af kökunni ættu stjórnvöld þess í stað að einbeita sér að því að næra og byggja upp hagkerfið til að kakan geti stækkað sem fyrst á nýjan leik. Með því má verja störf, almenn lífskjör og sjálfbærni hagkerfisins til lengri tíma," segir m.a. í tilkynningu Viðskiptaráðs.