Þingmenn Sjálfstæðisflokksins yfirgáfu þingsal Alþingis í dag á meðan atkvæðagreiðsla fór fram um frumvarp um vörumerki. Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður flokksins, sagði að þetta gerðu þeir vegna þess að þeir hefðu ekki fengið að ræða fundarstjórn forseta.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafði áður fengið orðið um fundarstjórn forseta og lýst þeirri skoðun að breyta ætti dagskrá þingsins og hefja þegar umræðu um skattaáform ríkisstjórnarinnar og ef það væri ekki hægt þá við fyrsta tækifæri.
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, sagði að hún myndi taka málið upp á fundi með þingflokksmönnum eftir utandagskrárumræðu um þorskkvóta, sem boðuð hafði verið í dag. Þegar fleiri þingmenn sjálfstæðismanna létu vita af því að þeir vildu ræða um fundarstjórn forseta sagði Ásta Ragnheiður að hún hefði brugðist við erindi Bjarna og gaf ekki fleirum orðið.
Eftir atkvæðagreiðsluna um vörumerkjafrumvarpið komu þingmennirnir í salinn á ný og þá fékk Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður sjálfstæðismanna, orðið um fundarstjórn forseta. Hann sagði að margir þingmenn hefðu ítrekað óskað eftir því að ræða um fundarstjórn en ekki fengið. Þótt forsetinn hefði brugðist við erindi Bjarna væri honum algerlega ómögulegt að vita hvaða skoðanir aðrir þingmenn hefðu á málinu. Sagði Illugi, að það hlyti að vera grundvallarréttur þingmanna að fá að tjá sig um fundarstjórn forseta.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokks, benti á að þingmenn úr fleiri flokkum hefðu beðið um orðið um fundarstjórn og það yrði kalt í neðra áður en Bjarni Benediktsson færi að tala fyrir hönd framsóknarmanna.