Spyr um áhrif tekjuskattshækkana á greiðslugetu heimila

Tryggva Þór Herbertsson
Tryggva Þór Herbertsson Valdís Þórðardóttir

Tryggvi Þór Herbertsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í efnahags- og skattanefnd, hefur óskað eftir því við Helga Hjörvar, formann nefndarinnar, að Seðlabanka Íslands verði farlið að skoða hvaða áhrif fyrirhugaðar tekjuskattshækkanir muni hafa á greiðslugetu heimilanna.

Í fyrirspurn sinni til formanns efnahags- og skattanefndar spyr Tryggvi hversu mörg heimili færist yfir í þann flokk sem ekki ræður við skuldir sínar við fyrirhugaða lækkun ráðstöfunartekna vegna fyrirhugaðra tekjuskattshækkana. Einnig spyr hann hvaða áhrif virðisaukaskattshækkun hafi á annars vegar greiðslugetu heimilanna og  hins vegar hækkun verðtryggðra lána?

Auk þess vill Tryggvi fá upplýsingar um almenn áhrif skattahækkana á ráðstöfunartekjur og greiðslugetu heimilanna og hvaða áhrif frysting persónuafsláttar hafi á greiðslugetu heimilanna?

„Tekjur heimilanna hafa lækkað svo mikið í kjölfar hrunsins og greiðslugeta heimilanna versnað. Það að taka af heimilunum viðbótar tekjur mun leiða til þess að enn fleiri heimili lendi í vandræðum og vandamálin koma þá fram annars staðar í kerfinu,“  segir Tryggvi og tekur fram að jafnframt megi búast við því að fyrirhugaðar tekjuskattshækkanir muni draga úr umsvifum í þjóðfélaginu.  

Aðspurður segist hann telja að Seðlabankinn eigi að geta svarað fyrirspurn hans á aðeins nokkrum dögum. „Svona úttekt sem ég er að kalla eftir á ekki að þurfa að taka langan tíma að gera, því Seðlabankinn er kominn með gríðarlega góða gagnagrunna um greiðslugetu og skuldabyrði heimilanna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka