Skuldavandi bænda og breytt rekstrarumhverfi landbúnaðarins í kjölfar kreppunnar er meðal þess sem helst bera á góma á bændafundum Bændasamtakanna, að sögn fréttavefjar Bændablaðsins. Bændur voru uggandi um sinn hag á bændafundi í Miðgarði í Hvalfjarðarsveit í gærkvöldi, að sögn blaðsins.
Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtakanna ræddi um það upplausnarástand sem ríkt hafi í þjóðfélaginu eftir að kreppan skall á. Hann sagði að lítið gengi við að koma ýmsum málum áleiðis og ekki lægju neinar endanlegar tillögur á borðinu vegna skuldavanda bænda.
Haraldur sagði að bændum væri almennt ráðlagt að best sé að reyna að borga af lánum eins og hægt er.
Bændur spurðu m.a. um ábyrgð ráðgjafarþjónustu og ekki síst bankastofnana í aðdraganda hrunsins á fundinum. Sigríður Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Búnaðasamtaka Vesturlands, sagði að áberandi hefði verið á góðæristímanum að bankarnir leituðu ekki ráða hjá fagráðunautum landbúnaðarins. Sama hefði átt við um ýmsa bændur.
Haraldur formaður BÍ sagði það ekki vera neitt launungarmál
að menn hafi farið fram úr sjálfum sér í landbúnaðinum eins og í öðrum
atvinnugreinum í góðærinu.