Útilokar ekki aukinn kvóta

Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra, sagðist á Alþingi í dag ekki útiloka að aflakvótar verði auknir á yfirstandandi fiskveiðiári en fyrir slíkri ákvörðun verði að liggja fullnægjandi og sterk rök. 

Þá sagði Jón ljóst, að kvóti fyrir makrílveiðar, sem ákveðinn verður á næstunni, verði meiri á næsta ári en á þessu ári. Hann lagði hins vegar áherslu á að Íslendingar nýttu auðlindir sínar á sjálfbæran hátt og gætu sýnt alþjóðasamfélaginu fram á að það væri gert.

Þetta kom fram í utandagskrárumræðu á Alþingi um aukningu aflaheimilda í dag. Ásbjörn Óttarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, lýsti þar m.a. þeirri skoðun, að auka ætti þorskkvótann á yfirstandandi fiskveiðiári um 40 þúsund tonn, ýsukvótann um 7 þúsund tonn og ufsakvóta um 15 þúsund tonnum af ufsa. Þá gagnrýndi hann að grálúðukvóti hefði verið skertur um 3 þúsund tonn frá síðasta fiskveiðiári.

Fleiri þingmenn tóku undir þessa skoðun. Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, sagði, að ef aflaheimildir verði auknar ætti að selja þær á markaði gegn gjaldi til að afla ríkissjóði tekna. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert