Útlán dragast saman um 38%

Útlán Íbúðalánasjóðs námu 1,8 milljörðum í október
Útlán Íbúðalánasjóðs námu 1,8 milljörðum í október mbl.is/Golli

Heildarútlán Íbúðalánasjóðs námu rúmlega 1,8 milljörðum króna í október. Þar af voru rúmir 1,5 milljarðar vegna almennra lána og tæpar 300 milljónir vegna annarra lána. Heildarútlán sjóðsins drógust saman um tæp 38% frá fyrra mánuði.

Meðalútlán almennra lána voru um 9,3 milljónir króna í október sem er um 7% lægra en í september. Heildarútlán sjóðsins nema rúmum 26 milljörðum króna það sem af er árinu 2009 en það eru um 51% minni útlán en á sama tímabili árið 2008, að því er segir skýrslu sjóðsins fyrir októbermánuð.

 Helstu breytingar í nýjum lögum um greiðslujöfnun fasteignaveðlána eru að sett er þak á greiðslujöfnun fasteignaveðlána þannig að lán lengjast að hámarki um þrjú ár. Ef einhverjar eftirstöðvar eru af láninu að þeim tíma liðnum falla þær niður.

Öll verðtryggð fasteignaveðlán sem eru í skilum fara sjálfkrafa í greiðslujöfnun frá og með desembergjalddaga nema lántaki afþakki breytinguna.

Heildarvelta íbúðabréfa í október nam tæpum 97 milljörðum króna en það er 17% meiri velta en í fyrra mánuði. Heildarvelta bréfanna nemur rúmum 809 milljörðum það sem af er árinu 2009.

Íbúðalánasjóður
Íbúðalánasjóður Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert