Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði á Alþingi í dag, að samskipti Íslands og Bandaríkjanna hafi frá árinu 2006 ekki verið jafn góð og á þessu ári. En árið 2006 hefði Sjálfstæðisflokkurinn borið ábyrgð á dæmalausu klúðri í samskiptum landanna tveggja.
Þetta kom fram þegar Össur svaraði fyrirspurn frá Guðlaugi Þór Þórðarsyni, þingmanni Sjálfstæðisflokks, um hvort ástæða þess, að nýr sendiherra Bandaríkjanna hefur ekki tekið til starfa hér á landi, geti verið vegna uppákomu í tengslum við veitingu fálkaorðu.
Fram kom sl. vor, að Carol von Voorst, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna hér, fékk bréflega tilkynningu um að veita ætti henni fálkaorðuna en þegar hún var á leið til Bessastaða fékk hún símtal frá forsetaskrifstofunni um að ekki stæði til að sæma hana orðunni.
Össur sagði, að það væri ekki sitt að dæma um hverjum forseti Íslands eigi að veita orður eða ekki. Þá sagði hann sér væri tjáð að þegar stjórnarskipti verði í Bandaríkjunum leggi allir sendiherrar fram lausnarbeiðni sína. Það taki að meðaltali 7 mánuði að skipa nýjan sendiherra. 13 ríki hafi ekki fengið skipaðan sendiherra ennþá en Barack Obama tók við embætti Bandaríkjaforseta í janúar.
Össur sagðist ekki hafa skilið hvers vegna Guðlaugur lagði þessa fyrirspurn fram á Alþingi fyrr en hann las Morgunblaðið í morgun en í leiðara blaðsins var fjallað um málið og m.a. sagt, að ef uppákoman með fálkaorðuna hafi haft skaðleg áhrif á samskipti Íslands og Bandaríkjanna sé nauðsynlegt að eyða þeim eftirköstum sem allra fyrst.
Sagði Össur að Guðlaugur virtist telja það eitthvert sérstakt hlutverk sitt að vera sendisveinn ritstjóra Morgunblaðsins og bera svona mál inn í þingið. Ætti Guðlaugur ekki að smækka sig með því að gerast sendisveinn manna í einelti gagnvart forseta Íslands.
Guðlaugur sagðist ekki enn hafa lesið leiðara Morgunblaðsins í dag en tók fram að hann væri áskrifandi að blaðinu. Sagði hann að allir vissu, að fálkaorðumálið hafi ekki verið heppileg uppákoma og viðkvæmni utanríkisráðherra í þessu máli væri mjög áhugaverð.
Össur sagðist vera viðkvæmur fyrir virðingu þingsins og sagði að ekki ætti að misnota þingið í þeim tilgangi, sem augljóslega lægi á bakvið spurningu Guðlaugs og tengdist beint leiðara Morgunblaðsins í dag.
Guðlaugur hafði nú talað tvisvar í umræðunni. Hann spurði forseta þingsins hvenær í dagskrá þingsins væri hægt að verja sig fyrir því að vera sakaður um að misnota þingið þegar spurning væri lögð fyrir ráðherra. Ráðherrar ættu að bera það mikla virðingu fyrir sjálfum sér og þinginu að svara málefnalega þegar þeir væru spurðir.