Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra, hefur tilkynnt að bólusetning gegn svínainflúensunni verði öllum að kostnaðarlausu. Þurfa einstaklingar hvorki að greiða fyrir komu á heilsugæslu né fyrir sjálft bóluefnið.
Allir landsmenn geta pantað tíma á heilsugæslustöðvum fyrir bólusetningu gegn inflúensu A(H1N1) frá og með mánudeginum 16. nóvember. Sóttvarnalæknir hvetur vanfærar konur og þá sem eru með undirliggjandi sjúkdóma til að panta þegar í stað tíma fyrir bólusetningu á næstu heilsugæslustöð.
Þá er eindregið mælst til þess að aðstandendur barna, ungmenna og aldraðra með undirliggjandi sjúkdóma sjái til þess að viðkomandi láti bólusetja sig.