Ekki heimild fyrir stimpilgjaldi af aðfaragerðum

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Brynjar Gauti

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að ekki sé í lögum heimild til að innheimta stimpilgjöld af aðfaragerðum þegar þeim var þinglýst. Dómurinn er fordæmisgefandi og gæti íslenska ríkið þurft að endurgreiða um 1.280 milljónir króna vegna hans.

Umboðsmaður Alþingis afgreiddi frá sér álit á síðasta ári þar sem komist var að sömu niðurstöðu. Í kjölfarið var lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um stimpilgjöld á Alþingi. Frumvarpið var afgreitt í desember sl. og tók gildi samstundis. Með breytingunum var bætt við lögin að jafnframt skyldi tekið stimpilgjald af aðfaragerðum, kyrrsetningargerðum og löggeymslu.

Ríkið hefur byggt á því að í lögunum sé ákvæði sem segir að greiða skuli stimpilgjald þegar tryggingabréfum er þinglýst. Í málinu var hins vegar bent á að aðfaragerðir verði alls ekki lagðar að jöfnu við tryggingabréf. Í athugasemdum við frumvarp Alþingis kemur fram að það eigi að samþykkja til að taka af öll tvímæli um heimildir til innheimtunar.

Efnahags- og skattanefnd skilaði nefndaráliti vegna frumvarps Alþingis. Í því kemur fram að tekjurnar af gjaldinu nema um það bil 5% af heildartekjum af stimpilgjaldi á ári hverju eða sem svarar 320 milljónum króna. Ríkið gæti því þurft að endurgreiða um 1.280 milljónir króna. Kröfurnar fyrnast þó á fjórum árum og fyrnast nokkrar á hverjum degi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert