Engar bætur vegna mengunar frá álveri

Álverið í Straumsvík.
Álverið í Straumsvík. mbl.is/Ómar

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað Alcan á Íslandi, íslenska ríkið og Hafnarfjarðarbæ af kröfum eigenda jarðarinnar Óttarsstaða í nágrenni álversins í Straumsvík um að viðurkennd verði skaðabótakrafa vegna þess að jörðin hafi orðið verðminni vegna mengunar frá álverinu.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu, að stefnendum hafi ekki tekist að sýna fram á það svo óyggjandi sé að Alcan, Hafnarfjörður og ríkið hafi með ólögmætri og saknæmri háttsemi bakað sér skaðabótaábyrgð.

Stefnendur voru  Straumsbúið sf., Íslenskir aðalverktakar hf. og fimm einstaklingar en þessir aðilar eiga Óttarsstaði sameiginlega. Voru stefnendurnir dæmdir til að greiða málskotnað, samtals 750 þúsund krónur.

Eigendur Óttarsstaða höfðuðu einnig mál á hendur ríkinu, Alcan og Hafnarfjarðarbæ árið 2007 og kröfðust þess m.a. að viðurkennt yrði að óheimilt væri að reka álver Alcan á Íslandi í Straumsvík þannig að frá því stafi gastegundir eða reykur sem mengi loft, vatn og land á jörðinni. 

Landeigendurnir vildu einnig fá viðurkenningu á því, að sú takmörkun, sem felst í 12. gr. aðalsamnings milli íslenska ríkisins og Alusuisse hinn 28. mars 1966 á ábyrgð Alcan á Íslandi hf. á tjóni innan svæðis takmarkaðrar ábyrgðar í landi Óttars­staða sé ólögmæt og ógild gagnvart jarðareigendunum.

Þá kröfðust þeir þess, að að Alcan á Íslandi, íslenska ríkinu og Hafnarfjarðarbæ væri gert að kaupa landið af þeim eða greiða skaðabætur þar sem landið sé verðlaust sem byggingarland vegna þess að það sé innan skilgreinds þynningarsvæðis.

Héraðsdómur vísaði málinu þá frá og sagði að ekki væri hægt að leysa úr þessum dómkröfum saman. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert