Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að sér lítist afar illa á þær hugmyndir, sem hafi verið á sveimi, sem feli í sér verulega auknar skattbyrðar á millitekjuhópa í landinu, þ.e. þá sem eru með tekjur á bilinu 300-600 þúsund kr., til að hlífa þeim sem séu með yfir 600.000 kr. tekjur.
„Það hefur alveg legið ljóst fyrir að Alþýðusambandið hefur gert athugasemdir við ríkisstjórnina. Við teljum enn að það sé verið að ganga of langt í skattahækkunum. Við höfum miklar áhyggjur af því að það sem menn eru að reikna sér í tekjur muni einfaldlega ekki skila sér, vegna þess að það verði þvílíkt álag á tekjustofnana. Það muni aukast atvinnuleysi og tekjur ríkissjóðs muni þverra vegna þess,“ segir Gylfi í samtali við mbl.is.
„Við vorum að reyna að leggja til að það yrði aðeins lyft upp í skattleysismarkaendanum, en að öðru leyti yrði þessi útfærsla [ríkisstjórnarinnar] að þriggja þrepa kerfi mjög ásættanleg við þessar erfiðu aðstæður. Það væri verið að hlífa fólki upp í meðaltekjur,“ segir hann.
Gylfir bendir á að ASÍ hafi lengi verið talsmaður þess að tekin verði upp fleiri þrep í skattkerfinu og að tekjujöfnunaráhrif skattkerfisins verði aukin. Á undanförnum mörgum árum hafi tekjuhærri einstaklingar fyrst og fremst notið skattalækkana stjórnvalda. Nú sé lag til að mynda hér þriggja þrepa kerfi. „Við í sjálfu sér styðjum það,“ segir Gylfi.
Spurður um samráð ASÍ og stjórnvalda um breytingar á skattkerfinu segir Gylfi að það hafi verið fremur lítið síðustu daga.
Stjórnarflokkarnir hafa fundað með þingflokkum sínum í kvöld um skattamálin í kvöld. Til stendur að leggja fram endanlegar tillögur á morgun.