Fréttaskýring: Margsamsett laun borgarfulltrúa

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Júlíus

Laun einstakra borgarfulltrúa geta slagað upp í laun borgarstjóra þegar allt er talið. Laun borgarfulltrúa voru lækkuð um 10% í fyrravetur og laun borgarstjóra lækkuðu um 17%. Þá hafa einstök fyrirtæki borgarinnar lækkað stjórnarlaun. Laun stjórnarmanna í Orkuveitu Reykjavíkur voru t.d. lækkuð um 25% sl. vetur.

Samkvæmt samþykktum borgarinnar um starfskjör kjörinna borgarfulltrúa eru grunnlaun borgarfulltrúa 77,82% af þingfarakaupi eins og það er á hverjum tíma. Þingfarakaup er í dag 520 þúsund krónur á mánuði. Til viðbótar þessu fá borgarfulltrúar greiddar 66.400 krónur á mánuði til að mæta persónulegum starfskostnaði, s.s. til kaupa á dagblöðum, tímaritum, bókum, ferðum innan höfuðborgarsvæðisins og veitingum, einnig til ráðstefnugjalda og fleira þess háttar.

 25% álag fyrir borgarráðsmenn og formenn nefnda

Borgarfulltrúar sem sitja í borgarráði fá 25% álag á grunnlaun og varamenn í borgarráði fá 6% fast álag á grunnlaun. Formaður borgarráðs, Óskar Bergsson, fær 40% álag. Sjö borgarfulltrúar sitja í borgarráði, auk Ólafs F. Magnússonar sem er áheyrnarfulltrúi.

Borgarfulltrúar sem eru formenn í nefndum fá greitt 25% álag. Ekki er greitt viðbótarálag þó að menn séu formenn í fleiri en einni nefnd. Dæmi eru um að borgarfulltrúar séu formenn í fleiri en einni nefnd.

Þeir sem gegna formennsku í borgarstjórnarflokki sínum fá 25% álag á laun. Þetta tryggir Sóleyju Tómasdóttur, Oddnýju Sturludóttur og Ólafi F. Magnússyni 25% álag á laun, en Gísli Marteinn Baldursson og Óskar Bergsson, sem eru formenn borgarstjórnarflokka Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, eru með álagsgreiðslur fyrir og fá því ekki þessar viðbótargreiðslur.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson fær sem forseti borgarstjórnar 25% álag á grunnlaun, óháð öðrum álagsgreiðslum. Hann fær til viðbótar afnot af bifreið og bifreiðastjóra vegna starfa sinna líkt og borgarstjóri.

Reykjavíkurborg leggur borgarfulltrúum til fartölvu og farsíma og greiðir kostnað af notkun hans. Sömuleiðis greiðir borgin kostnað af nettengingu á heimili borgarfulltrúa.

Borgarfulltrúum eru greidd föst laun meðan sumarleyfi borgarstjórnar stendur yfir og fundarhlé er hjá nefndum og ráðum.

Fyrsti varaborgarfulltrúi hvers flokks fær greidd föst laun sem eru 70% af grunnlaunum borgarfulltrúa. Fyrstu varaborgarfulltrúar Framsóknarflokks og F-listans hafa sagt sig úr flokkunum og hafa því ekki tekið þátt í starfi borgarstjórnar. Þeir hafa engu að síður fengið laun allt kjörtímabilið.

Borgarfulltrúar eiga rétt á biðlaunum í þrjá mánuði. Ef þeir taka ekki við öðru launuðu starfi eiga þeir rétt á biðlaunum í allt að sex mánuði. Ekki er ólíklegt að reyni á biðlaunaréttinn í vor þegar fram fara kosningar til borgarstjórnar.

Spurt um mætingar

Morgunblaðið sendi fyrir síðustu helgi formönnum níu fastanefnda Reykjavíkurborgar tölvuskeyti þar sem farið var fram á yfirlit um mætingar borgarfulltrúa og aðalmanna á fundum nefndanna á kjörtímabilinu. Einnig var spurt hvort það teldist mæting ef nefndarmaður sæti aðeins stuttan tíma, jafnvel aðeins korter. Síðdegis í gær hafði aðeins borist svar frá Mannréttindaráði um fundarsókn það sem af er árinu 2009.

Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi VG, hefur lagt fram tillögu í forsætisnefnd Reykjavíkur um að dregið verði af launum kjörinna fulltrúa ef þeir séu oft fjarverandi á fundum ráða og nefnda borgarinnar. Tillaga Þorleifs bíður afgreiðslu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert