Munu ekki una skattahækkunum sem lengja kreppuna

Vilhjálmur Egilsson.
Vilhjálmur Egilsson. mbl.is/Árni Sæberg

Samtök atvinnulífsins (SA) segjast aldrei  munu aldrei una skattahækkunum, sem séu til þess fallnar að dýpka og lengja kreppuna. Þá geti samtökin heldur ekki unað því að gengið sé þvert á það sem búið er að semja um. Verði það niðurstaða ríkisstjórnarinnar skilji leiðir.

Þetta kemur fram í leiðara Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra SA í nýju fréttabréfi samtakanna. Segir Vilhjálmur, að þegar stjórn SA ákvað framlengja kjarasamninga við Alþýðusambandið til nóvemberloka 2010 hafi staðið út af eitt mikilvægt atriði í viðræðum við ríkisstjórnina um framkvæmd stöðugleikasáttmálans. Þetta voru skattamálin, fyrst og fremst skattamál atvinnulífsins. 

„Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er miðað við hátt í 90 milljarða króna skattahækkanir á þessu ári og því næsta miðað við fyrri hluta þessa árs. Við gerð stöðugleikasáttmálans var gert ráð fyrir 54 milljarða skattahækkunum á þremur árum, þ.e.a.s. 2009 - 2011. Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambandið telja ekki vera forsendur fyrir þessum 90 milljarða skattahækkunum og gerðu athugasemdir við svokallaða aðlögunarþörf í ríkisfjármálum eins og hún birtist í fjárlagafrumvarpinu þótt aðstæður geti hugsanlega að einhverju leyti hafa breyst. Jafnframt var lögð áhersla á að minni skattahækkanir ættu fyrst og fremst að koma fram í minni hækkun tekjuskatts einstaklinga," segir Vilhjálmur.

Hann bætir við að SA hafi einnig mótmælt harðlega áformum um nýja orku-, kolefnis- og umhverfisskatta. Hins vegar hafi samtökin verið til viðræðu um skattahækkanir á atvinnulífið og ekki í sjálfu sér gert athugasemdir við það meginmarkmið að ná inn 16 milljörðum meira í ríkissjóð eins og fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir að hin nýju orku-, kolefnis- og umhverfisgjöld skili. Ekki hefur heldur verið gerð athugasemd við hækkun virðisaukaskatts um 8 milljarða króna.

„Nú er boltinn hjá ríkisstjórninni og vonandi næst niðurstaða sem atvinnulífið getur unað við. Meginmarkmið Samtaka atvinnulífsins er að binda enda á kreppuna og koma fjárfestingum og uppbyggingu nýrra starfa af stað. Um þetta hefur ríkisstjórnin sagst vera sammála SA og um þetta var samstaða í stöðugleikasáttmálanum," segir Vilhjálmur.

Leiðari Vilhjálms

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert