Samtök ferðaþjónustunnar gagnrýna skattahækkanir

Erlendir ferðamenn í borginni.
Erlendir ferðamenn í borginni. mbl.is/Eggert

Samtök ferðaþjónustunnar segja að með stórhækkuðum sköttum verði sóknarfæri í ferðaþjónstu hér á landi ekki lengur til staðar. Þau segja að hækkun á flugfarseðlum, hótelgistingu, veitingum, landflutningum og afþreyingu muni leiða til þess að ferðamönnum muni fækka.

Auk þess muni gjaldeyristekjur lækka og þá muni þetta leiða til óþarfa atvinnuleysis.  

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samtökum ferðaþjónustunnar sem er eftirfarandi:

„Í fréttum að undanförnu hefur verið greint frá alls kyns hugmyndum og tillögum um miklar skattahækkanir á m.a. flestallar greinar ferðaþjónustu og ef hugmyndir þessar ná fram þá stefnir augljóslega í fækkun erlendra ferðamanna hingað til lands.
 
Ferðaþjónustan er sú atvinnugrein sem hvað mest er horft til í þeim efnahagsþrengingum sem þjóðin býr við nú og hefur lækkun íslensku krónunnar bætt samkeppnisstöðuna.   Áform eru uppi um aukið flug til landsins á næsta ári og hafa Samtök ferðaþjónustunnar ítrekað bent á sóknarfæri og að ein skjótvirkasta leiðin til tekjuöflunar í þjóðfélaginu sé að fá hingað fleiri erlenda ferðamenn.  Helstu samkeppnislönd eru að setja stóraukið fé til landkynningar og því þarf íslensk ferðaþjónusta á því að halda að stjórnvöld gangi í takt við greinina.  Þetta gengur þvert á yfirlýsingar allra stjórnmálaflokkanna fyrir síðustu kosningar um að nýta sóknarfæri í ferðaþjónustu.
 
Með stórhækkuðum sköttum verður þetta dýrmæta sóknarfæri ekki lengur til staðar.  Hækkun nú á flugfarseðlum, hótelgistingu, veitingum, landflutningum og afþreyingu mun leiða til fækkunar ferðamanna, lækkunar gjaldeyristekna og þar með óþarfa atvinnuleysis.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka