Sníkjudýrið skógarmítill (Ixodes ricinus) er að öllum líkindum orðinn landlægur hér á landi, en um er að ræða blóðsugu sem leggst á spendýr og fugla. Kemur þetta fram í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur.
Í nágrannalöndum okkar getur hann borið með sér sjúkdóma og bakteríur eins og þá sem veldur Borrelíósu (Lyme-sjúkdómi) auk veira sem valdið geta heilabólgu.
Segir í svari ráðherra að fylgst sé með Lyme-sjúkdómi og veirusjúkdómnum hér á landi, en Lyme er hægt að lækna með sýklalyfjun og til eru bóluefni gegn veirusjúkdómnum. Fylgst hefur verið með Lyme-sjúkdómi undanfarin tuttugu ár og fundist hafa sjö tilfelli um sjúkdóminn, en ekkert þeirra átti uppruna sinn hér á landi.
Að lokum segir í svarinu að fyrst skógarmítill sé orðinn landlægur hér sé full ástæða til að fræða almenning um lífsferil hans og hvernig forðast megi skaða af hans völdum. Segir að sé hann tekinn af húðinni innan við sólarhring eftir að hann nær að festa sig er hann talinn hættulaus, þar sem langan tíma tekur fyrir Lyme-sjúkdóminn að komast í blóðrás hýsils.