Spyrst fyrir um boðsferðir

Ólafur F. Magnússon
Ólafur F. Magnússon Kristinn Ingvarsson

Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi, spurði á fundi borgarráðs í dag fyrir um ýmsan kostnað tengdan boðsferðum. Annars vegar vegna boðsferða í Elliðaárnar og hins vegar vegna leikhúsferða borgarfulltrúa á yfirstandandi kjörtímabili.

Ólafur óskaði eftir svörum um það hver sé kostnaður borgaryfirvalda, eða fyrirtækja á vegum borgarinnar, vegna boðsferða kjörinna fulltrúa í Elliðaárnar  Einnig vildi hann vita hvaða borgarfulltrúar hafi þegið boð um veiði í Elliðaánum á nýverandi kjörtímabili þ.e. sumrin 2006 - 2009.

Að mati Ólafs er brýnt að fá kostnað vegna boðsferða í Elliðaárnar fram í dagsljósið, þannig að borgarfulltrúum gefist framvegis  tækifæri til að greiða allan kostnað vegna boðsferða sem þeir þiggja úr eigin vasa.

Á sama hátt spurði Ólafur um kostnað vegna leikhúsferða borgarfulltrúa sl. fjögur árin. Hvaða borgarfulltrúar hafi þegið boð í leikhúsferðir hjá Leikfélagi Reykjavíkur á þessu kjörtímabili og á hversu margar sýningar. Hann spurði einnig hver áætla megi að kostnaður vegna þessara leikhúsferða hafi verið á kjörtímabilinu miðað við að fulltrúarnir hefðu greitt kostnaðinn úr eigin vasa.

Á sama fundi lét Ólafur bóka meðfylgjandi vegna framlagningar fundargerðar hverfisráðs Háaleitis:

„Á fundi hverfisráðs Háaleitis 3. nóvember sl. kynnti ég fyrir fundarmönnum tillögu sem ég flutti síðar um daginn um umferðaröryggi og hraðahindrandi aðgerðir í Háaleitis- og Bústaðahverfi í borgarstjórn Reykjavíkur. 

Í tillögunni var gert ráð fyrir 30 km svæði á Háaleitisbraut allri, á Bústaðavegi frá Háaleitisbraut að Reykjanesbraut, á Réttarholtsvegi öllum og á Stjörnugróf allri. 

Sumar aðgerðir í anda þessara tillagna hófust í borgarstjóratíð minni, m.a. velheppnaður 30 km kafli á Háaleitisbraut norðan Miklubrautar, auk hraðahindrandi aðgerða á Fellsmúla og Réttarholtsvegi. 

En eftir að núverandi meirihluti tók skyndilega við stjórnartaumum í borginni var jafn skyndilega skrúfað fyrir allar umferðaröryggisaðgerðir í Háaleitishverfi, sem annars staðar í borginni, en þessar tillögur hafði ég sett á dagskrá eftir fundi mína með íbúum í öllum hverfum Reykjavíkurborgar vorið 2008. 

Tillaga mín í borgarstjórn 3. nóvember sl. var svæfð eins og fjölmargar aðrar tillögur sem ég hef flutt í borgarráði og borgarstjórn á þessu og síðasta ári.  Það virðist engin áhrif hafa á meirihlutann í borgarstjórn þó að hverfisráð Háaleitis, að meðtöldum fulltrúum íbúasamtaka Háaleitis- og Bústaðahverfa, hafi á fundi sínum fyrr um daginn lýst einregnum og einróma stuðnigi við tillögu mína um hraðahindrandi aðgerðir í Háaleitis- og Bústaðahverfi.“

Jafnframt spurðist Ólafur, á fundi borgarráðs í dag, fyrir um kostnað, greiðsluaðila, fjarvistardaga, tíðni ferða borgarstjóra og niðurfellingu borgarráðsfunda í borgarstjóratíð Ólafs F. Magnússonar annars vegar og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur hins vegar. Ólafur spurði í því samhengi um það hversu margir hefðbundnir borgarráðsfundir á fimmtudögum hefðu verið felldir niður í tíð borgarstjóranna tveggja.

„Í sjötta lagi er spurt með hvaða rökum Hanna Birna Kristjánsdóttir kaus að senda sjálfa sig ásamt borgarfulltrúanum Degi B. Eggertssyni til útlanda að veita viðtöku fyrir verkefnið 1,2 og Reykjavík, sem Dagur B. Eggertsson átti hugmyndina að. 

Það var Ólafur F. Magnússon sem kom verkefninu 1,2 og Reykjavík í framkvæmd og sat í því sambandi opna fundi með íbúum í öllum hverfum borgarinnar.  Verkefnið hefur eins og mörg fleiri verkefni legið að mestu í dvala eftir að Hanna Birna Kristjánsdóttir varð borgarstjóri. 

Ennfremur er spurt með hvaða rökum Ólafi F. Magnússyni var ekki gefinn kostur á að veita viðtöku verðlaunum fyrir það mikla hreinsunar- og öryggisátak, sem hann stóð fyrir í miðborginni sumarið 2008.  Í staðinn og án minnsta samráðs var framsóknarmaðurinn, Gestur Guðjónsson, sem aldrei hefur átt sæti í borgarstjórn og er nú horfinn af vettvangi nefndarstarfa fyrir
Framsóknarflokkinn, sendur í ferðina. 

Ljóst er að Ólafur F. Magnússon hefði greitt sjálfur kostnað af slíkri ferð.  Því er spurt:  Hver greiddi ferð Gests Guðjónssonar til að veita viðtöku verðlaunum fyrir verkefni sem snerist um að snúa við því ófremdarástandi, sem verk Framsóknarflokksins í miðborginni allt frá árinu 1994 höfðu skapað?“ segir m.a. í fyrirspurn Ólafs.         
     


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert