Þorbjörg Guðrún Pálsdóttir, myndhöggvari og húsmóðir, lést í Reykjavík miðvikudaginn 11. nóvember.
Þorbjörg fæddist 10. febrúar 1919 í Reykjavík, dóttir Páls Ólafssonar, ræðismanns og útgerðarmanns, og Hildar Stefánsdóttur húsfreyju. Hún giftist 6. ágúst 1942 Andrési Ásmundssyni lækni, fæddur 30. júní 1916, dáinn 30. október 2006. Þau eignuðust fimm börn og tvö kjörbörn, barnabörnin eru 18 og barnabarnabörnin eru 4.
Þorbjörg stundaði nám við Verzlunarskóla Íslands og í ljósmyndun við Iðnskólann í Reykjavík. Stundaði nám við Berggrens Målarskola og við Konstfack í Stokkhólmi. Eftir heimkomu frá Svíþjóð 1961 stundaði hún nám hjá Ásmundi Sveinssyni, Sigurjóni Ólafssyni og Jóhanni Eyfells.
Þorbjörg stofnaði Myndhöggvarafélagið í Reykjavík árið 1972 ásamt nokkrum myndhöggvurum og árið 1997 var hún gerð að heiðursfélaga þess. Þorbjörg tók virkan þátt í útisýningum myndlistarmanna á Skólavörðuholti í mörg ár og þar var verkið Dansleikur fyrst sýnt árið 1970. Það hefur síðan verið steypt í brons og sett upp við Perluna. Þorbjörg hefur haldið nokkrar einkasýningar á verkum sínum sem og tekið þátt í samsýningum bæði hér heima og erlendis. Verk eftir Þorbjörgu eru í eigu ýmissa aðila, þ.ám. Listasafns Íslands og Listasafns Reykjavíkur. Fyrir framlag sitt til myndlistar hlaut Þorbjörg starfslaun myndlistarmanna.