Þingmaður Samfylkingarinnar segir, að þriggja þrepa tekjuskattur rími vel við áherslur ríkisstjórnarinnar, sem flokkurinn veitir forstöðu, um að standa vörð um kjör lágtekjufólks. Hins vegar þurfi stjórnarflokkarnir að sýna pólitískan kjark ef þeir ætla að innleiða þrepaskattskerfi því það séu gjarnan tekjuhærri hóparnir sem stjórna samfélagsumræðunni.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, alþingismaður, skrifar grein á vefritið Pólitík.is og segir, að sú norræna velferðarstjórn, sem Samfylkingin veiti forystu, hafi á stefnuskrá sinni að standa vörð um kjör lágtekjufólks og þá sem við erfiðastar aðstæður búa og dreifa byrðunum með sanngirni, jöfnuð og réttlæti að leiðarljósi. Hugmyndir um þriggja þrepa skattkerfi rími mjög vel við þær áherslur.
„Ef við berum saman þriggja þrepa skattkerfið sem birtist í Fréttablaðinu við hefðbundnar Sjálfstæðisleiðir kemur ýmislegt fróðlegt í ljós. Ef þriggja þrepa kerfið yrði fyrir valinu, umfram hefðbundna breytingu þar sem persónuafsláttur væri látinn fylgja verðlagi og skattprósentan hækkuð jafnt á alla, myndi fólk með tekjur undir 400 þúsund krónur í mánaðartekjur koma betur út með þrepaskatti en skattbyrðin færi að þyngjast á tekjur yfir 500 þúsund krónur. Með öðrum orðum langfjölmennasti tekjuhópurinn myndi koma betur út úr þrepaskattskerfinu en við þingmenn og fólk með hærri tekjur þyrftum að borga hlutfallslega hærri skatta. Sem jafnaðarkona á ég ekki erfitt með að verja slíkar breytingar," segir Sigríður.