Brennisteinsvetni innan marka

Þorvaldur Örn Kristmundsson

Samkvæmt nýjum mælingum Umhverfisstofnunar á magni brennisteinsvetnis í lofti í Hveragerði er styrkur þess langt innan marka og viðmiða.

Þar kemur fram að hæsta 8 stunda meðaltalsgildið á tímabilinu frá mars til september á þessu áru er 97 míkrógrömm á rúmmetra, en samkvæmt mörkum vinnueftirlitsins má það ekki vera hærra en 15.000 míkrógrömm. Sé horft til hæsta gildis fyrir sólarhringsmeðaltal þá er að 40 míkrógrömm, en má samkvæmt viðmiðun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) vera 150 míkrógrömm.

Þetta kemur fram í grein sem Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur, hefur ritað og birtist annars vegar á vef OR og hins vegar í Sunnlenska fréttablaðinu.

Bendir hann á að nú standi yfir á Ölfusi umfangsmestu framkvæmdir í landinu, þar sem unnið sé að stækkun Hellisheiðarvirkjunar. Uppbygging og frágangur muni standa enn um hríð því ráðgert sé að taka hitaveituna í notkun í árslok 2010 og stækkun rafstöðvarinnar í lok árs 2011.

Í grein sinni gerir Eiríkur að umtalsefni áhyggjuraddir vegna nýrra jarðvarmavirkjana á Hengilssvæðinu. „Það er einkum þrennt sem virðist valda áhyggjum. Það er aukinn styrkur brennisteinsvetnis í lofti, hvort vatnsból verði fyrir áhrifum af jarðhitanýtingunni og hvort ferðamennska og útivist bíði skaða af,“ segir Eiríkur og færir síðan rök fyrir því í grein sinni að þær áhyggjuraddir séu óþarfar.

Eiríkur bendir á að í þeim nýju virkjunum, sem nýtt Aðalskipulag Ölfuss geri ráð fyrir á Hengilssvæðinu, sé áformað að hreinsa brennisteinsvetnið úr útblæstri virkjunarinnar og því mun hveralyktin ekki finnast frá þeim.

Eiríkur gerir ferðamennsku á Suðurlandi að umtalsefni og bendir á að það sem af sé ári hafa um 92 þúsund manns heimsótt Hellisheiðarvirkjun. „Á þessu ári tóku líka margir þátt í skipulögðum gönguferðum Orkuveitu Reykjavíkur um Hengilssvæðið. Skipulagðar hestaferðir gengu vel, það best er vitað, og auðvitað fór útivistarfólk um svæðið án þess að nokkur hafi haldið um það sérstakar skýrslur,“ segir Eiríkur og tekur fram að hjá OR séu menn sér meðvitaðir um að varðveita gildi svæðisins sem útivistarsvæði.

Grein Eiríks Hjálmarssonar á vef OR



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert