Dregur úr halla ríkissjóðs

Nú stefnir í að halli á rekstri ríkissjóðs á þessu ári verði ekki eins mikill og reiknað var með þegar fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár var lagt fram í byrjun október. Þetta kom fram hjá Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra, á Alþingi í dag.

Steingrímur sagði í umræðu um skattamál á Alþingi í dag, að dregið hafi heldur úr útgjaldaþörf ríkisins á síðustu mánuðum einnig væri útlit fyrir að vaxtakostnaður ríkisins yrði 10-17 milljörðum króna minni en útlit var fyrir, m.a. vegna þess að betur hefði gengið að endurfjármagna bankakerfið.

Þá væru atvinnuleysistölur heldur betri en útlit var fyrir sem þýddi að ekki þyrfti að leggja Atvinnuleysistryggingasjóði til jafn mikið fé og áætlað var. Loks væru tekjur ríkisins heldur að styrkjast á nýjan leik og virðisaukaskatturinn að gefa meiri tekjur sem sýndi að umsvifin séu að aukast í þjóðfélaginu á ný.

Steingrímur sagði, að nánari tölur um þetta kæmu fram þegar breytingartillögur verða lagðar fram við fjáraukalagafrumvarp fyrir yfirstandandi ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert