Eina færa leiðin

Þingmenn ræddu skatta á Alþingi í dag.
Þingmenn ræddu skatta á Alþingi í dag. mbl.is/Ómar

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði á Alþingi, að eina færa leiðin til að fást við gríðarlegan halla á ríkissjóði væri blönduð leið niðurskurðar ríkisútgjalda og skattahækkana. Steingrímur fjallaði hins vegar ekki um hvaða tillögur ríkisstjórnin gerði um skattahækkanir. 

Rætt var um skattamál utan dagskrár á Alþingi í dag að ósk Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokks. Bjarni sagði, að þrátt fyrir öll áföll hefðu skatttekjur ríkisins haldið í við verðlag frá árinu 2003.  Verkefnið nú væri að koma skattstofnunum aftur í lag svo þeir fari að skila ríkinu tekjum. Áform ríkisstjórnarinnar væru hins vegar fullkomlega óljós en ríkisstjórnin hefði helst tjáð sig um skattaáform sín á tröppum Stjórnarráðsins en ekki í þinginu.

Bjarni sagði, að breyting á skattprósentu væri eitt en  aðrar álögur, sem lentu á fólkinu í landinu, væri annað. Reiknað hafi verið út, að fólk með um 300 þúsund á mánuði muni fá skattalækkun um 1000 krónur á mánuði. Sú skattalækkun muni hverfa næst þegar þeir dæla bensíni á bílinn sinn.

„Þessi ríkisstjórn hefur þá skyldu að hlífa almenningi í landinu, hún verður að byggja upp bjartsýni og trú. Það gerir leið Sjálfstæðisflokksins," sagði Bjarni og vísaði til tillagna sjálfsstæðismanna um að ríkið taki til sín frestaðar skatttekjur í lífeyrissjóðakerfinu. Sagði Bjarni að með því móti væri hægt að loka fjárlagagatinu.  

Steingrímur sagði, að vissulega væri hægt að taka risastór lán hjá kynslóðum framtíðarinnar í gegnum lífeyrissjóðakerfið. Það væri leið Sjálfstæðisflokksins, sem væri ekki ábyrg. Sagði Steingrímur að það hefði verið dökkt yfir Bjarna því hann kæmist að þeirir niðurstöðu, að það hefði ekkert uppá sig að reyna að hlífa tekjulægsta fólkinu við skattahækkunum vegna þess að það færi beint út á bensínsölu, kannski í N1, og keypti þar bensín. 

„Eigum við þá ekki að reyna þetta og gefast upp?" spurði Steingrímur.  Hann sagði, að tapið í Seðlabankanum hefði verið 300 milljarðar króna og uppsafnaður halli á ríkissjóði á árunum 2008 til 2010 stefni í 500 milljarða króna. „Þetta tekur dáldið í og kostar sitt í vaxtagreiðslum árlega að standa undir þessum skuldum. Halli af þessari stærðargráðu gengur ekki upp og það væri algerlega óábyrgt annað en að takast á við það af mikilli einbeitni að ná honum umtalsvert niður. Og þeim mun stærri skref sem við tökum framarlega í ferlinu þeim mun betra."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert